Borgarráð samþykkti í gær tillögu Jóns Gnarr borgarstjóra að settar verði fram tillögur að breytingum eða uppsögn á samstarfssamningi Reykjavíkurborgar og Moskvu, höfuðborgar Rússlands.
Borgarstjóri vill að þetta verði gert í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað síðustu misserin í málefnum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi. Tillagan var samþykkt og verður borgarlögmanni, mannréttindaskrifstou, skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að koma með tillögur, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið og Samtökin 78.
Sjálfstæðismenn settu sig ekki upp á móti því að samningurinn yrði endurskoðaður en settu fram eftirfarandi bókun:
„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks setja sig ekki upp á móti því að skoðaðar verði breytingar á samstarfsamningi á milli Reykjavíkur og Moskvu. Í slíkri yfirferð þarf að fara yfir þau tækifæri sem geta falist í vinasamböndum við aðrar borgir.
Moskva er ein af 11 borgum sem teljast til vinaborga Reykjavíkur. Íslensk utanríkisþjónusta er í sendiráðs- og ræðismannssambandi á 270 stöðum í heiminum í yfir 80 löndum.
Með því að vera í sambandi við önnur ríki á alþjóðavettvangi er íslensk þjóð ekki að leggja blessun sína yfir mannréttindabrot sem vitað er að framin eru í ýmsum þessara landa, þ. á m. í löndum þar sem starfrækt eru íslensk sendiráð. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins hafa nýtt sér stöðu sína til að árétta stuðning Íslands við réttindabaráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi.
Að skella hurðum gerir maður bara einu sinni og ekki er líklegt að það atvik veki athygli annars staðar en hér. Með því getur þó verið lokað á mikilvæg tækifæri til þess að hafa áhrif á ráðamenn annarra þjóða til lengri tíma og gera gagn í þágu mannréttinda. Borgarstjóri hefur sagt opinberlega að hann vilji slíta samstarfssamningi við Moskvu. Sú tillaga sem hér liggur fyrir gengur ekki út á það heldur að farið verði yfir málið og að það muni síðan koma aftur fyrir borgarráð sem tekur endanlega ákvörðun.
Afstaða til samstarfssamningsins í heild sinni og hugsanlegra breytinga á honum verður tekin þegar leitað hefur verið eftir áliti frá þeim aðilum sem tilgreindir eru í tillögunni.“

