Formúla 1

Keppni hefst á ný í F1

Rúnar Jónsson skrifar
Button fagnar sigri á Spa í fyrra.
Button fagnar sigri á Spa í fyrra.
Ellefta keppni tímabilsins í F1-kappakstrinum fer fram um helgina á Spa-brautinni í Belgíu. Eftir fjögurra  vikna hlé mæta kapparnir til leiks á þessa sögufrægu braut sem er ein sú hraðasta og lengsta á tímabilinu, 7,004 km að lengd.

Belgíski kappaksturinn fer fram í 46. skipti á Spa-brautinni um helgina og hefst þar með strembin lokahluti í F1 næstu þrjá mánuði sem samanstendur af níu keppnum.

Á síðasta ári var það Jenson Button sem fagnaði sigri í belgíska kappakstrinum og er það eini sigur hans á þessari braut í ellefu keppnum.

Button hefur átt erfitt uppdráttar á þessu ári og hefur ekki enn komist á verðlaunapall á þessu tímabili.

Þýski heimsmeistarinn Sebastian Vettel leiðir stigakeppni ökumanna með 172 stig, Finnski ökuþórinn Kimi Raikkonen er í öðru sæti með 134 stig og Spánverjinn Fernando Alonso í þriðja sæti með 133 stig.

Það er því ljóst að baráttan verður mikil um hvert stig í keppninni á sunnudaginn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport sem hefst klukkan 11.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×