Innlent

Sumarstarfsmenn tilkynntu um ofbeldi á leikskóla

Sumarstarfsmennirnir halda því fram að fleiri en einn starfsmaður hafi beitt börnin líkamlegu harðræði eins og rasskellingum.
Sumarstarfsmennirnir halda því fram að fleiri en einn starfsmaður hafi beitt börnin líkamlegu harðræði eins og rasskellingum. mynd/getty
Barnavernd Reykjavíkur rannsakar hvort starfsmenn leikskólans 101 í Reykjavík hafi beitt börn margvíslegu harðræði. Þetta kemur fram á ruv.is. Þar segir að málið hafi komist upp þegar tveir sumarstarfsmenn á leikskólanum sýndu barnavernd myndbönd í morgun og tilkynntu málið formlega.

Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafa í kvöld hringt í foreldra leikskólabarna og greint þeim frá rannsókninni. Þeir mæla ekki með því að börnin fari á leikskólann á meðan rannsókn stendur yfir að því er fram kemur á RÚV. Skóla- og frístundasvið muni á morgun athuga rekstur leikskólans í samráði við lögfræðing borgarinnar.

Sumarstarfsmennirnir halda því fram að fleiri en einn starfsmaður hafi beitt börnin líkamlegu harðræði eins og rassskellingum. Börnum hafi verið refsað með því að halda frá þeim mat og þá hafi börn verið lokuð af. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur skoðuðu myndböndin í dag og ákváðu að taka málið til rannsóknar.

Leikskólinn er ungbarnaleikskóli þar sem dvelur 31 barn samkvæmt upplýsingum á vef Reykjavíkurborgar. Börnin eru frá 9 mánaða til eins og hálfs árs gömul. Eigandi skólans fullyrti í samtali við RÚV að ásakanirnar væru rangar og að málið allt væri sér mikið áfall.

Hulda Linda Stefánsdóttir, rekstarstjóri leikskólans, segist hafa óskað eftir rannsókn á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×