Íslenski boltinn

Guðrún Jóna verður ekki áfram með FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir.
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir.
Kvennalið FH í Pepsi-deildinni leitar nú að nýjum þjálfara en FH sendi frá sér fréttatilkynningu í kvöld þar sem kom fram að Guðrún Jóna Kristjánsdóttir væri hætt þjálfun liðsins.

FH-liðið varð í 6. sæti með 19 stig sumarið 2013 en fékk 17 stig og endaði í 7. sæti í sumar. FH vann 5-2 sigur á botnliði Þróttar í síðasta leiknum undir stjórn Guðrúnar Jónu.

Guðrún Jóna var þjálfari annars flokks FH þegar hún tók við meistaraflokksliðinu af Helenu Ólafsdóttur um mitt sumar 2012 en 2. flokkur FH varð Íslandsmeistari undir stjórn Guðrúnar Jónu í fyrra og vann ennfremur bikarinn árið áður.

„Kvennaráð knattspyrnudeildar FH og Guðrún Jóna Kristjánsdóttir, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu, komast að samkomulagi um að Guðrún Jóna hætti þjálfun liðsins," segir í yfirlýsingu frá FH í kvöld.

„Kvennaráð þakkar Guðrúnu Jónu fyrir gott og óeigingjarnt starf fyrir félagið og óskar henni alls hins besta í framtíðinni. Strax verður hafist handa við leit að nýjum þjálfara."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×