Sport

Risastúka flutt til landsins | Merkið er klárt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Evrópumeistarar Íslands árið 2012.
Evrópumeistarar Íslands árið 2012.
Fimleikasamband Íslands mun flytja stúku til landsins vegna Evrópumeistaramótsins í hópfimleikum sem fer fram hér á landi eftir 390 daga.

Mótið verður haldið í frjálsíþróttahöll Laugardalshallar þar sem stúkunni verður komið fyrir. Hún mun rúma 4.280 manns í sæti. Reiknað er með um eitt þúsund keppendum frá tuttugu löndum. Fimleikasambandið reiknar þess utan með um 2000 erlendum gestum vegna mótsins.

„Þar sem viðburðurinn fer fram í október er hann frábær viðbót við ferðamannaiðnaðinn á Íslandi sem hefur verið í stöðugri sókn undanfarið og er til þess fallinn að brúa bilið frá sumarlokum fram að Airwaves tónlistarhátíðinni,“ eins og segir í tilkynningu frá FSÍ.

Kvennalandslið Íslands vann gullverðlaun í Svíþjóð 2010 og Danmörku 2012 og á því titil að verja. Í keppnunum tveimur á undan vann liðið til silfurverðlauna.

Vinna við skipulagningu mótsins er á áætlun og á dögunum lauk vinnu við merki mótsins.

Merkið hefur skírskotun til náttúru Íslands; eldfjalla, norðurljósa og hafsins sem umlykur landið. Það er hannað af Rakel Tómasdóttur og má sjá hér að neðan.

Merki mótsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×