Íslenski boltinn

Góður sigur Vestra og Fram tapaði gegn Lengju­deildar­liði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elmar Atli Garðarsson skoraði fyrir Vestra.
Elmar Atli Garðarsson skoraði fyrir Vestra. Vísir/Hulda Margrét

Vestri vann sigur á Fjölni í Lengjubikar karla í dag. Þá gerðu Njarðvíkingar góða ferð á heimavöll Framara í Úlfarsárdal.

Vestri og Fjölnir mættust í A-deild Lengjubikarsins í Egilshöll en Fjölnismenn eru nýbúnir að ráða Gunnar Má Guðmundsson sem þjálfara eftir að Úlfur Arnar Jökulsson var rekinn á dögunum. 

Leikurinn var markalaus eftir fyrri hálfleikinn en á fyrstu tólf mínútum síðari hálfleiks skoruðu þeir Elmar Atli Garðarsson og Silas Songani fyrir Vestra og komu gestunum í 2-0. Vladimir Tufegdzig skoraði þriðja mark Vestra á 85. mínútu en Máni Austmann Hilmarsson skoraði sárabótamark fyrir Fjölni undir lokin.

Lokatölur 3-1 fyrir Vestra en þetta er fyrsti sigur liðsins í Lengjubikarnum til þessa.

Í Árbænum voru KA-menn í heimsókn og þar skoraði Viðar Örn Kjartansson fyrir KA undir lok fyrri hálfleiks og kom norðanmönnum í 1-0. Guðmundur Tyrfingsson jafnaði metin fyrir Fylki í síðari hálfleik og lokatölur 1-1 í Árbænum.

Í Úlfarsárdal var Lengjudeildarlið Njarðvíkur í heimsókn hjá Frömurum. Omar Diouck kom Njarðvík í 1-0 strax á 3. mínútu en Róbert Hauksson jafnaði metin hálftíma síðar og staðan í hálfleik 1-1. Þegar skammt var eftir skoraði hinn 17 ára gamli Freysteinn Ingi Guðnason síðan sigurmark Njarðvíkur og tryggði gestunum 2-1 sigur.

Þetta var fyrsti sigur Njarðvíkur í Lengjubikarnum en Fram er á toppi riðilsins með sex stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×