Innlent

Grjótfok rústar bílum í Öræfum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Rúður brotnuðu í fjölda bíla í Freysnesi
Rúður brotnuðu í fjölda bíla í Freysnesi Mynd/Eyrún Halla Jónsdóttir
Ákaflega slæmt veður var á landinu öllu í gær og þurftu björgunarsveitir landsins að sinna fjölda útkalla. Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit þurfti að aðstoða fjölda bifreiða sem fastar sátu í Námuskarði. Einnig voru ferðamenn fastir í bílum sínum á Sprengisandi en Björgunarsveitin Þingey kom þeim til aðstoðar.

Þá þurfti Björgunarsveitin Hérað á Egils­stöðum að aðstoða bíla í Vatnsskarði eystra og á Fjarðarheiði. Í Vestmanna­eyjum og í Hafnarfirði fuku þakplötur af íbúðarhúsum og voru björgunarsveitir sendar á vettvang til að­stoðar. „Það hefur verið mjög mikið að gera hjá smærri björgunar­sveit­unum úti á landi, sem sjá um fjallvegi og heiðar. Þetta eru auðvitað allt sjálfboða­liðar og álagið hefur verið mikið á þeim,“ segir Ólöf ­Snæhólm Baldursdóttir, fjölmiðlafulltrúi Landsbjargar. Á landsvísu eru um 4.000 manns á útkallsskrá hjá björgunarsveitunum.

Vegir landsins voru margir ­hverjir þaktir snjó eða krapi og slæm veðurskilyrði ollu vandræðum víða. Á Vestfjörðum var snjóþekja og skaf­renningur á fjallvegum og voru hálkublettir á Steingríms­fjarðar­heiði og Þröskuldum. Á Norðausturlandi var víða hálka og éljagangur. Krapasnjór var í Fagradal, Vatnsskarði eystra og á Öxi. Ófært var í Hamars­firði, á Hellisheiði eystri og á Suðausturlandi var ófært milli Kirkjubæjarklausturs og Freysness vegna óveðurs.

„Veðrið var verst um klukkan 15 en svo lægði aðeins,“ segir Eyrún Halla Jónsdóttir, starfsmaður í Söluskálanum í Freysnesi. Fjölmargir bílar stóðu fastir á Skeiðarársandi sökum veðurofsa á staðnum. „Það óku um 20 bílar fram hjá okkur með brotnar rúður og skemmt lakk,“ bætir Eyrún Halla við. Fjöldi fólks þurfti að yfirgefa bíla sína á Skeiðarársandi en grunnskólinn í Hofgarði var opnaður til að hýsa það fólk sem var í vanda statt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×