Bíó og sjónvarp

Hlakkaði til að hitta Jón Gnarr

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Agnieszka Holland.
Agnieszka Holland.
Kvikmyndin, Burning Bush verður sýnd á Evrópsku kvikmyndahátíðinni, EIFF sem haldin er í Bíó paradís. Leikstjóri myndarinnar Agnieszka Holland verður viðstödd sýninguna á morgun og eftir myndina verður leikstjóraspjall sem Þóra Tómasdóttir stýrir.

Burning Bush er framlag Tékklands til Óskarsverðlaunanna í ár en Agnieszka á þrjár tilnefningar að baki til verðlaunanna,  meðal annars fyrir mynd sína In Darkness sem einnig er sýnd á hátíðinni.

Hún hefur gert fjölda kvikmynda um pólitísk efni og myndir hennar hafa fengið góða dóma og hún er ein af fáum konum sem hefur vakið mikla athygli fyrir myndir sínar í Hollywood. Agnieszka leikstýrði einnig þremur þáttum í þáttaröðunum The Wire.

Eins og einhverjir ef til vill muna setti Jón Gnarr það sem skilyrði fyrir þá sem vildu fara í samstarf með honum í borgarstjórn að þau hefðu horft á The Wire.

Agnieszka sagði í viðtali við blaðamann að hún hefði lesið um áhuga borgarstjórans á þáttunum og heyrt af þessum skilyrðum sem hann setti fyrir stjórnaryndun. Hún hlakkar til að hitta borgarstjórann. “Það er augljóst að hann er sérlega vel gefinn maður og það gefst ekki oft tækifæri á að hitta jafn augljóslega gáfaðan stjórnmálamann sem er auk þess með góðan kvikmyndasmekk.”

Agnieszka og Jón Gnarr munu hittast í dag við sýningu kvikmyndarinnar In Darkness. Myndin verður sýnd með sjónlýsingu fyrir blinda og sjónskerta. Þau Agnieszka og Jón eru verndarar verkefninsins “Ísland og Pólland fyrir auknu aðgengi að menningu.”

Lét lífið fyrir málstaðinn

Hugmyndina að Burning Bush sem sýnd verður á morgun segir Agnieszka komna frá ungu fólki í Tékklandi. Myndin sem er sannsöguleg er byggð á atburðum sem leiddu til þess og komu í kjölfar þess Jan Palach, ungur háskólanemi í Prag kveikti í sjálfum sér árið 1969, til þess að mótmæla hernámi Sovétríkjanna í Tékklandi. Á þessum árum var kommúnisminn ríkjandi í Tékklandi eins og í fleiri löndum Evrópu. Myndin fjallar um hvernig farið var með mál Jan í framhaldinu og hvernig yfirvöld í Tékklandi reyndu að sverta mannorð Jan. Ung kona, lögfræðingurnn Dagmar Burešová, tók að sér að verja fjölskyldu Jan í málaferlum í kjölfar atburðarins.

„Ég var sjálf búsett í Prag á þessum tíma og Jan var jafngamall og ég. Þetta er mikilvægur kafli í sögu Tékklands sem ekki hafa verið gerð nógu góð skil í kvikmyndagerð,” segir Agnieszka. Það var 26 ára gamall Tékki sem skrifaði söguna og fleira ungt fólk kom að gerð handritisins. “Það er mikilvægt að sagan er skrifuð af ungu fólki sem vill segja þessa sögu. Það hefur lítið verið rætt um kommúnismann og afleiðingar hans í Tékklandi og annars staðar.” 

Hún bendir í þessu samhengi á að það hafi verið gerðar fjöldi mynda um seinni heimsstyrjöldina og en minna um það hvernig það hafi verið að lifa við kommúnismann og áhrif hans á þjóðir Evrópu.

Agnieszka man vel eftir ástandinu sem var á þessum tíma. “Það er mikilvægt að minna á og sýna hvernig fólk á þessum tímum var tilbúið að berjast gegn ríkjandi ástandi. Jafnvel þó það vissi að það myndi þurfa að greiða hátt verð fyrir það. Eins og í tilfelli Jan, sem lét lífið til þess að vekja athygli á málstaðnum, segir hún.

Myndin hefur hlotið góðar viðtökur í Tékklandi. „Það kom mér talsvert á óvart og sýnir líklega best hversu mikil áhrif myndin hefur haft þar í landi að Tékkar ákveða að senda hana sem sitt framlag til Óskarsverðlaunanna, þrátt fyrir að ég sé pólsk en ekki tékknesk,” segir Agnieszka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.