Innlent

„Ég sagði honum frá afstöðu þjóðkirkjunnar til samkynhneigðra“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Agnes og Graham spjölluðu á Biskupsstofu í dag.
Agnes og Graham spjölluðu á Biskupsstofu í dag.
Franklin Graham, hinn umdeildi bandaríski predikari sem kemur fram á Hátíð vonar um helgina, heimsótti biskup Íslands á Biskupsstofu í dag.

Á vefsíðu sinni skrifar Agnes M. Sigurðardóttir biskup um heimsóknina en hún mun sjálf ávarpa hátíðina á laugardagskvöldið. Einnig gerði hún Graham grein fyrir afstöðu þjóðkirkjunnar til samkynhneigðra, en predikarinn er þekktur fyrir skoðanir sínar á samkynhneigð og hefur komu hans hingað til lands meðal annars verið mótmælt vegna þess.

„Á fundinum gerði ég honum grein fyrir stöðu þjóðkirkjunnar sem starfar um land allt, er opin öllum landsmönnum og þjónar öllum,“ skrifar biskup, sem sagði Graham jafnframt að kirkjan hafi tekið skýra afstöðu með samkynhneigðum og réttindabaráttu þeirra.

„Ólík fjölskylduform tíðkast á Íslandi í dag. Þar er engin einsleitni í gangi. Ógift og barnlaust par er fjölskylda, tveir karlmenn eða tvær konur og barn eða börn þeirra eru fjölskylda, karl og kona sem eiga barn eða börn eru fjölskylda. Þjóðkirkjan vill standa vörð um fjölskyldurnar allar, hvert svo sem form þeirra er og einnig stuðla að og standa vörð um velferð þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×