Innlent

Læðan Nuk verður ekki aflífuð

Kristján Hjálmarsson skrifar
Fáir kettir hafa valdið jafn miklum usla á Íslandi og læðan Nuk.
Fáir kettir hafa valdið jafn miklum usla á Íslandi og læðan Nuk.
Læðan Nuk, sem slapp úr einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli aðfaranótt þriðjudags, verður ekki aflífuð heldur tekin í ítarlega heilbrigðisskoðun og sýni tekin úr henni til rannsóknar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Eins og fram hefur komið fannst læðan aðeins nokkur hundruð metra frá flugvélinni. Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að aflað verði nákvæmra upplýsinga um heilsufar læðunnar, bólusetningar og á hvaða stöðum hún hefði verið undanfarna tvo mánuði.

Á grundvelli þessara upplýsinga og þess að líklegt má teljast að læðan hafi ekki komist í nána snertingu við aðra ketti og litlar líkur taldar á að smitsjúkdómar sem ekki eru til staðar hér á landi hafi borist til landsins við þetta óhapp. 

Stofnunin mun, í varúðarskyni, gera heilbrigðisskoðun á læðunni og taka úr henni sýni til rannsókna.

Í lögum um innflutning dýra segir að dýrum sem flutt eru inn án heimildar skuli tafarlaust lógað og skrokkum eytt svo eigi stafi hætta af.

Tilgangur laganna er að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins. Í ljósi atvika í þessu tiltekna máli er ljóst að ekki var verið að flytja læðuna inn til landsins og óhapp var þess valdandi að hún slapp út úr flugvélinni.

Matvælastofnun lítur því svo á að ekki sé þörf á að fara fram á aflífun á dýrinu og hefur ákveðið að heimila eiganda þess að fara með það úr landi.


Tengdar fréttir

"Finnið hana“

Dönsk kona sem týndi kettinum sínum á Reykjavíkurflugvelli biðlar til Íslendinga um að finna köttinn og heitir fundarlaunum fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×