Fótbolti

Jafntefli hjá Emil - tap hjá Birki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. Mynd/NordicPhotos/Getty
Emil Hallfreðsson spilaði allar 90 mínúturnar þegar Hellas Verona gerði 2-2 jafntefli á móti Torino á útivelli í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Birki Bjarnason kom inn á sem varamaður í tapi Sampdoria.

Brasilíumaðurinn Jorginho tryggði Hellas Verona 2-2 jafntefli með marki úr vítaspyrnu á 67. mínútu en Torino komst tvisvar yfir í leiknum. Argentínumaðurinn Juan Gómez Taleb skoraði fyrra mark Verona eftir sendingu frá Luca Toni.

Birkir Bjarnason kom inn á 62. mínútu þegar Sampdoria tapaði 0-2 á heimavelli á móti Roma. Bæði mörk Rómverja komu eftir að Birkir var kominn inn á völlinn.

Það fyrra skoraði Marokkómaðurinn Mehdi Benatia á 65. mínútu en það síðara gerði Fílabeinsstrendingurinn Gervinho á 89. mínútu.

Hellas Verona er í 10. sæti deildarinnar með 7 stig í 5 leikjum en Sampdoria-liðið hefur aðeins náð í 2 stig í fyrstu fimm leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×