Innlent

„Komum heiminum í lag,“ frá Naíróbí til Mosfellsbæjar

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Í vikunni fer fram í þriðja sinn átakið „Komum heiminum í lag,“ en þar vekja góðgerðarfélög á Íslandi, sem vinna að þróunarmálum,  athygli á mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar þegar kemur að fátækt í heiminum, vannæringu og ójöfnuði.

Í ár er lögð áhersla á mikilvægi menntunar.

Átakið hófst formlega í dag þegar krakkarnir í sjöunda bekk í Varmárskóla í Mosfellsbæ hringdu í jafnaldra sína í Kenía, í gegnum Skype.

Krakkarnir hafa verið í sambandi við vinabekkinn sinn frá Kenía um nokkurt skeið og hafa fræðst um líf þeirra, siði og venjur. 



Netsambandið var stopult í upphafi og biðu krakkarnir í ofvæni eftir að heyra frá vinum sínum enda brunnu á þeim margar spurningar og einnig höfðu þau útbúið kynningaspjöld með fróðleiksmolum um Ísland fyrir kenísku krakkana. 

Mosfellingarnir ungu sögðust hafa lært margt af vinum sínum ytra og gerðu sér vel grein fyrir aðstöðumuninum á þjóðunum tveimur.

Þeim gafst svo einnig tækifæri í að spreyta sig á nokkrum orðum og kveðjum á Svahílí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×