Fótbolti

Fullkomin byrjun Roma heldur áfram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Totti og félagar fagna í Mílanó í gærkvöldi.
Totti og félagar fagna í Mílanó í gærkvöldi. Nordicphotos/Getty
Francesco Totti skoraði tvö af mörkum Roma sem fór létt með Inter á San Siro í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í gærkvöldi.

Fyrirliðinn 37 ára afgreidd boltann af krafti í netið á 18. mínútu og bætti við öðru marki úr vítaspyrnu á 39. mínútu. Það var Gervinho, fyrrverandi leikmaður Arsenal, sem fiskaði vítaspyrnuna.

Roma missti mann af velli stundarfjórðungi fyrir leikslok en landaði þó 3-0 sigri. Liðið hefur unnið alla sjö leiki sína í deildinni og hefur markatöluna 20-1. Um bestu byrjun liðsins í sögunni er að ræða.

„Ég held að enginn hafi átt von á svo góðri byrjun,“ sagði Totti. Inter tapaði sínum fyrsta leik á leiktíðinni og er sjö stigum á eftir toppliðinu.

Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson verða í eldlínunni með Sampdoria og Hellas Verona í leikjum liðanna klukkan 13 í dag. Fylgst verður með gangi mála hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×