Fram kemur að hafís, myrkur, ölduhæð og hafdýpi séu aðeins hluti af þeim áskorunum sem felist í olíuvinnslu í Barentshafi. Ef þar eigi að verða framtíðarolíusvæði Noregs verði að koma til björgunar- og fjarskiptamiðstöð. Í dag sé á mörkunum að þyrlur dragi frá meginlandinu til olíusvæða Barentshafs, nema með mjög skertu burðarþoli.
Barlindhaug segir algerlega ljóst, eftir að miklar olíulindir fundust í Barentshafi, að þar sé framundan mikil uppbygging á nýjum olíuvinnslusvæðum. Ekki sé eftir neinu að bíða að takast á við þær áskoranir. Á Bjarnarey þurfi að byggja upp fullkomna leitar- og björgunarmiðstöð.
Norðmenn hafa frá árinu 1918 starfrækt veður- og fjarskiptastöð á Bjarnarey og þar eru að jafnaði um tíu starfsmenn. Eyjan er 178 ferkílómetrar að flatarmáli. Hún var talin hernaðarlega mikilvæg á dögum kalda stríðsins og ein af spennusögum rithöfundarins Alistair MacLean gerist á eynni.
