Bílar

Lipur borgarjepplingur

Finnur Thorlacius skrifar
Snaggaralegur jepplingur Hyundai ix35
Snaggaralegur jepplingur Hyundai ix35
Hyundai ix35 – reynsluakstur



Hyundai ix35 jepplingurinn er nú af annarri kynslóð sem kynnt var árið 2009. Nýjasta árgerð hans er þó nokkuð breytt, eins og títt er um bíla sem komnir eru að hálfum líftíma sinnar kynslóðar. Ytra útlit bílsins er lítið breytt, en meira hefur gerst inní bílnum og er hann nú enn betur búinn. Stærsta útlitsbreytingin er líklega fólgin í stærri plasthlíf upp eftir hliðinni að neðan. Ljós bílsins hafa breyst og eru aðalljósin nú Bi-xenon og afturljósin með LED lýsingu. Fjöðrun bílsins hefur verið breytt og er hún nú mýkri að framan og á þessi breyting að minnka titring og hljóð. Loftnetið nýja, sem er eins og hákarlsuggi uppúr þaki bílsins, setur einnig svip á þessa breyttu gerð. Hyundai er ekki af stærri gerð jepplinga, en sniðuglega hannað innra rými bílsins gera hann bara talsvert rúmgóðan. Þeir sem kjósa stærri jeppling ættu að skoða Hyundai Santa Fe sem nýkominn er af nýrri kynslóð og er einkar fallegur bíll en nokkru dýrari.

Dugleg en þyrst dísilvél

Að mati greinarhöfundar var fyrsta kynslóð ix35, frá 2004-2009, lítt fyrir augað en þessi bíll er margfalt betri útlitslega, en nær þó engum stórhæðum á fríðleikaskalanum. Hann er svona „no nonsense“ bíll sem allir þeir sem vita hvað framleiðsla Hyundai stendur fyrir eru kátir með. Kóreskir bílar hafa á undanförnum árum sannað sig sem gæðabílar sem bila lítið og eigin sannfæring framleiðenda þeirra hefur leitt þá til að bjóða lengri ábyrgð á bílum sínum en öðrum framleiðendum heimsins. Hyundai býður 5 ára ábyrgð á öllum sínum bílum. Hyundai ix35 má fá bæði með 166 hestafla bensínvél og 136 dísilvél, með sjálfskiptingu eða beinskiptur. Reynsluakstursbíllinn var með dísilvélinni og sjálfskiptur, en þannig búinn má búast við því að flestir ix35 seljist hér á landi og kostar hann 6.290.000 krónur. Ódýrasta útgáfa ix35 er bensínknúinn með beinskiptingu og kostar hann 5.590.000 krónur. Dísilvél bílsins er mjög drífandi og bíllinn fjári snöggur með henni, en vélin hefur breyst frá síðustu nárgerð bílsins og á að vera sparneytnari, en jafn öflug. Uppgefin eyðsla hennar er 6,9 l. í blönduðum akstri með sjálfskiptingunni og 8,8 l. innanbæjar. Reynsluaksturinn leiddi í ljós eyðslu innanbæjar uppá 9,5 lítra, sem er ekki svo langt frá uppgefinni eyðslu, en ekki er hægt að horfa framhjá því að þetta er ekki sérlega lág tala.

Mjög lipur í borgarakstri

Hyundai ix35 hefur fengið nýja sjálfskiptingu  og bíllinn er með læstan millikassa, sem gæti komið sér vel við íslenskar aðstæður. Hann er einnig með brekkuhjálp og brekkubremsu og er ári duglegur við erfiðar aðstæður. Stýringu bílsins má stilla og er nokkur munur á Normal, Comfort eða Sport stillingum. Þær stillingar breyta þó engu um fjöðrun bílsins, hann harðnar ekki á fjöðrunum í Sport-stillingu. Fyrir vikið gætir nokkuð hliðarhalla í kröppum beygjum og undirstýringu bílsins í leiðinni.   Þessi bíll var jú ekki hannaður sem sportbíll, heldur er uppsetning á fjöðrun bílsins ætluð til þægilegs aksturs og það hefur sannarlega tekist vel. Aksturseiginleikar ix35 ári góðir og bíllinn er ákaflega lipur í borgarumferðinni. Akstur hans vandist mjög hratt, en það var eitthvað skrítin tilfinning hversu hátt var setið í bílnum og stýrið lágt fyrir vikið. Það var að sjálfsögðu hækkað í hæstu stillingu til að sjá á mælana. Stöðugleikastýring hjálpar við krefjandi akstur og tengivagnahjálp getur komið sér vel fyrir þá sem nota bílinn fyrir slíkt.

Látlaus en praktísk innrétting

Að innan er Hyundai ix35 tiltölulega látlaus og þar er sko ekki takkakflóðið. Innréttingin er án nokkurs íburðar og stjórntækin einföld og skiljanleg. Efnisnotkun innréttingarinnar er ekki af ríkulegri gerðinni, en á móti kemur að það virðist allt vel sett saman. Hönnun innréttingarinnar er ágæt en hart plast er afar ríkjandi og gera sumir af samkeppnisbílum hans betur hvað það varðar. Hljómtækin í bílnum koma á óvart en það er ekki sjálfgefið að fá góðan hljóm úr bílum sem ekki tlejast ím lúxusflokki. Það er vafalaust mikil hugarhægð eigenda Hyundai bíla að vita af skilyrðislausri 5 ára ábyrgð bíla sinna og í leiðinni er það sterk yfirslýsing um þau gæði sem keypt eru. Staðalbúnaður ix35 er ríkulegur og of langt mál að telja hann upp allan. Upphitað stýri, bakkmyndavél og fjarlægðparskynjari er staðalbúnaður og íslenskt leiðsögukerfi fylgir Style og Premium útfærslum bílsins. Verð bílsins er samkeppnishæft,  en beinskiptur Honda CR-V fæst á 5.490.000 kr. og sjálfskipt dísilútgáfan er á 6.490.000 kr. Mazda CX-5 með bensínvél og beinskiptingu er á 5.390.000 kr. og dísilútgáfa hans með sjálfskiptingu er á 6.990.000 kr. Hyundai ix35 er því ódýrari en þeir báðir en minni og með aflminni vél en þeir báðir.

Kostir: Mikill staðalbúnaður, lipur í akstri,

Ókostir: Efnisnotkun innréttingar,

2,0 l. dísilvél, 136 hestöfl


Fjórhjóladrif

Eyðsla: 6,9 l./100 km í bl. akstri

Mengun: 179 g/km CO2

Hröðun: 12,1 sek.

Hámarkshraði: 182 km/klst

Verð frá: 5.590.000 kr.

Umboð: BL

Einföld og látlaus innrétting





×