Innlent

„Skrítið og ó­eðli­legt“ að Ísrael fái að vera með í Euro­vision

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er ekki hrifin af þátttöku Ísrael í Eurovision.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er ekki hrifin af þátttöku Ísrael í Eurovision. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðherra segir óeðlilegt að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision, og vill að Ísland beiti sér á vettvangi Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva gegn þátttöku Ísraela. Ráðherra telur þó að Ísland eigi ekki að sniðganga keppnina.

Söngkonan Yuval Raphael verður fulltrúi Ísraela með lagið New Day Will Rise í Eurovision sem fram fer í Basel í Sviss í maí. Þátttaka Ísraela í keppninni hefur verið umdeild í gegnum tíðina, einkum í ljósi framferðis þeirra gagnvart Palestínumönnum og stríðsreksturs á Gasa. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er meðal þeirra sem hefur efasemdir um þátttöku Ísrael í keppninni.

„Sem almennum borgara þá finnst mér það skrítið og í rauninni óeðlilegt að Ísraelar fái að taka þátt í Eurovision miðað við þá stríðsglæpi, og í rauninni þjóðernishreinsanir sem hafa átt sér stað núna á umliðnum vikum og mánuðum á Gasa. Síðan er hitt, að þetta er ákvörðun evrópskra sjónvarpsstöðva þar sem að meðal annars Ísland í gegnum Ríkisútvarpið á þátttökurétt, og mér finnst ekkert óeðlilegt að það verði tekið upp á þeim vettvangi,“ segir Þorgerður.

Ísland eigi að vera með

Hún bendir á að Spánverjar hafi til að mynda þegar gert athugasemd við þátttöku Ísraels og komið henni á framfæri við EBU, samtök evrópskra sjónvarpsstöðva sem halda. Henni þætti ekki óeðlilegt ef Ísland færi að fordæmi Spánverja.

Henni finnst þó ekki koma til álita að Ísland eigi að endurskoða sína þátttöku í keppninni ef fram fer sem horfir að Ísrael verði með.

„Nei það finnst mér ekki. Mér finnst að Ísland eigi að taka þátt ef að það er tekin ákvörðun um það að halda keppnina. Mér finnst að Ísland eigi að senda sína þátttakendur, Íslendingar eiga ekki að sniðganga keppnina. En mér finnst að Ísland eigi að skoða þetta og beita sér innan Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva hvað viðkemur þátttöku Ísraela,“ segir Þorgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×