Tónlist

Metallica halda tónleika á Suðurskautinu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Metallica munu hafa spilað í öllum heimsálfum að tónleikunum loknum.
Metallica munu hafa spilað í öllum heimsálfum að tónleikunum loknum. mynd/getty
Dansk-bandaríska rokksveitin Metallica mun halda tónleika við argentínsku Carlini-rannsóknarstöðina á Suðurskautslandinu í desember.

Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við Coca Cola og verður aðdáendum sveitarinnar í Suður-Ameríku gefinn kostur á að vinna miða á tónleikana með ferðum fram og til baka. Þá verður tónleikunum útvarpað til tónleikagesta sem verða með heyrnartól á hausnum í stað þess að notast verði við magnara og hátalarastæður eins og venja er.

Munu þessir sérstöku tónleikar gera Metallica að einu hljómsveitina sem spilað hefur í öllum heimsálfum, en aðeins hafa verið haldnir einir tónleikar á Suðurskautinu áður. Var það hljómsveit skipuð vísindamönnum sem sendi beint frá tónleikum sínum á Live Earth-tónleikunum árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×