Innlent

Fyrrverandi ráðherra óskar eftir vinnu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, auglýsir eftir verkefnum við textagerð.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, auglýsir eftir verkefnum við textagerð.
„Það er rétt, ég er að auglýsa að ég geti bætt á mig verkefnum á þessu sviði sem ég hef verið í meira og minna alla tíð,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, í samtali við Vísi.

Björgvin birti á Bland.is fyrir tveimur dögum síðan auglýsingu um að hann óskaði eftir verkefnum. Fram kemur í auglýsingunni að hann sé vanur og fær textagerðamaður og hafi mikla reynslu af textagerð hverskonar.

„Ég hef verið viðloðandi svona störf allan minn starfsferil, sérstaklega á árunum milli tvítugs og þrítugs. Ég ritstýrði á sínum tíma Stúdentablaðinu, skrifaði í Mannlíf og Vikublaðið ásamt ýmsu öðru,“ segir Björgvin.

Hann býður fram aðstoð sína við ritgerðir, greinar í blöð, tímarit eða umfangsmeiri ritvinnslu á borð við umsjón blaða, fagtímarita eða öðru slíku og býður sanngjarnt verð og skjóta þjónustu.

„Ég er nú bara að láta vita af mér, ég er með ágætis verkefni sem menningarritstjóri Pressunnar en get bætt við mig aukalega. Maður þarf víst að afla sér lífsviðurværis á því sviði sem maður er þokkalegastur,“ segir Björgvin léttur í bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×