Íslenski boltinn

Brynjar Björn er hættur í fótbolta - ætlar bara að þjálfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Björn Gunnarsson er orðinn aðstoðarþjálfari Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í fótbolta og hefur tekið þá endanlegu ákvörðun að setja fótboltaskóna upp á hillu. Hörður Magnússon hitti Brynjar Björn á æfingu með Stjörnunni og setti saman innslag í kvöldfréttir Stöðvar tvö.

„Það er engin eftirsjá að hætta að spila. Ég er mjög ánægður með að hafa lokað ferlinum eins og ég gerði eða með því að vinna titil vestur í bæ eins og við ætluðum okkur. Því markmið var náð þótt að það hefði verið gaman að spila eitt ár í viðbót," sagði Brynjar Björn Gunnarsson við Hörð Magnússon en Brynjar segir að það hafi ekki verið hægt að enda ferillinn betur en að verða Íslandsmeistari með KR.

Brynjari var ekki boðin álíka staða hjá KR og hjá Stjörnunni þar sem hann verður aðstoðarþjálfari Rúnars Páls Sigmundssonar.

„Ég var með samning hjá KR og það þurfti að leysa það mál. Félögin gerðu það sín á milli. Ég var búinn að segja það fljótlega eftir mót að ég ætlaði að spila áfram í KR. Svo er bara fótboltinn þannig að maður veit ekki alveg hvað er handan við hornið," sagði Brynjar Björn.

Hvað ef Stjarnan byrjar illa á næstu leiktíð og það verður leitað til Brynjars um að taka skóna fram aftur? „Það er útilokað. Ég gaf það út við KR-inga og við Stjörnuna og fleiri að ef ég hefði ætlað að spila áfram þá hefði ég bara gert það út í KR. Ég kem hingað í Stjörnuna sem þjálfari og það mun ekki breytast," sagði Brynjar Björn.



Það er hægt að sjá allt viðtal Harðar við Brynjar Björn með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×