Fótbolti

Gylfi: Vel gert hjá Ólafi Inga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var bjartsýnn að loknum fyrri leiknum gegn Króatíu í umspili fyrir HM 2014 í Brasilíu. Leiknum lauk með markalausu jafntefli þrátt fyrir að Íslandi hafi misst mann af velli með rautt spjald snemma í síðari hálfleik.

„Það var mjög mikilvægt að hafa náð að halda hreinu, sérstaklega miðað við að hafa misst Ólaf út af með rautt spjald. Nú verður útivallamarkið mjög dýrmætt,“ sagði Gylfi Þór en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Hann hrósaði varnarleiknum, sérstaklega í seinni hálfleik, og er bjartsýnn fyrir leikinn í Zagreb á þriðjudaginn.

„Sem betur fer erum við með nóg af góðum leikmönnum sem geta komið inn. Það var ekki leiðinlegt að fá Eið Smára inn af bekknum í kvöld og allir í hópnum fyrir utan byrjunarliðið eru klárir í að koma inn.“

Hann segir að það hafi verið erfitt að verjast í seinni hálfleik, enda yfirleitt með alla tíu mennina fyrir aftan boltann. „Síðan þegar við unnum boltann var enginn frammi til að spila á. En það jákvæða er að við náðum að halda hreinu þrátt fyrir að vera manni færri.“

Gylfi segir að rauða spjaldið sem Ólafur Ingi fékk hafi verið réttur dómur. „Hann var kominn í gegn og það sýndi reynslu hjá Óla að toga hann niður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×