Innlent

Skálmöld spilaði fyrir drottninguna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Drottningin var áhugasöm um rokkið, að sögn Snæbjörns.
Drottningin var áhugasöm um rokkið, að sögn Snæbjörns.
Þungarokkshljómsveitin Skálmöld tróð upp fyrir Margréti Þórhildi Danadrottningu í gærkvöldi, en tónleikarnir voru hluti af hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu vegna 350 ára fæðingarafmælis Árna Magnússonar.

Auk drottningar voru Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, meðal áhorfenda. Að sögn Snæbjörns Ragnarssonar, bassaleikara Skálmaldar, virtist sem flestir hafi skemmt sér ágætlega.

„Þarna voru allir á útivelli, bæði þau og við,“ segir Snæbjörn, en sveitin tók eitt lag og var það Miðgarðsormur af plötunni Börn Loka sem varð fyrir valinu. „Drottningin var áhugasöm og virtist vera í stuði en mér sýndist Sigmundur Davíð frekar vilja vera að ýta bílnum sínum en að hlusta á þetta.“

Hljómsveitin spjallaði ekki við drottninguna og segir Snæbjörn að þeir hafi bara brosað til hennar og reynt að vera ekki fyrir. „Við hittum hins vegar okkar bestu manneskju, Vigdísi Finnbogadóttur. Hún var alveg stórglæsileg og við töluðum talsvert við hana.“

Aðspurður segir Snæbjörn hljómsveitina hafa hækkað í botn og spilað á sínum vanalega hljóðstyrk þrátt fyrir óvenjulega áhorfendur. „Já já, það var alveg tekið skýrt fram þegar við vorum beðnir um þetta að það myndi enginn fá neina diet-útgáfu sem biður okkur að spila.“

Hér fyrir neðan má sjá Skálmöld flytja umrætt lag á tónleikum í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×