Norska Dagbladet lýsti þessu þannig að „ísbirnir" hefðu stormað inn, 30 grænfriðungar hefðu truflað ráðstefnuna. Guðni Jóhannesson, orkumálastjóri Íslands, sat á fremsta bekk og á skjávarpanum fyrir aftan mótmælendur sést að Ísland var á dagskrá en Guðni var að hefja erindi um Drekasvæðið. Fulltrúar Greenpeace-samtakanna ávörpuðu ráðstefnuna en neituðu síðan að yfirgefa salinn og kröfðust þess að henni yrði slitið.

Greenpeace segist með þessum aðgerðum vilja vekja athygli á því að þrjátíu meðlimir samtakanna hafa setið í varðhaldi í Rússlandi frá því í september eftir að þeir festu sig utan á olíuborpall í Barentshafi en jafnframt beinast mótmælin gegn olíuvinnslu á heimskautasvæðum.
„Þessum mótmælum var alls ekki beint sérstaklega gegn Drekasvæðinu enda ekkert á það minnst í þeirra framsetningu. Heldur fyrst og fremst held ég verið komin vegna fangelsunar félaga þeirra í rússneskri lögsögu,” segir Guðni.

„Menn sýndu þessu bara töluvert mikinn áhuga og komu nokkrar spurningar á eftir. Menn hafa áhuga á því hvernig aðstaða á Íslandi muni byggjast upp samhliða þessu. Það var spurt töluvert út í það,” segir orkumálastjóri.