Innlent

Linda Blöndal og Jóhannes Kr. fara

Jakob Bjarnar skrifar
Þekktir dagskrárgerðarmenn og fréttamenn eru nú að fá uppsagnarbréf í hendur. Meðal þeirra eru Jóhannes Kr. Kristjánsson fréttamaður og Linda Blöndal útvarpskona.
Þekktir dagskrárgerðarmenn og fréttamenn eru nú að fá uppsagnarbréf í hendur. Meðal þeirra eru Jóhannes Kr. Kristjánsson fréttamaður og Linda Blöndal útvarpskona.
Enn bætist í hóp þeirra sem sagt hefur verið upp á Ríkisútvarpinu.

Mjög erfiður dagur er meðal starfsfólks Ríkisútvarpsins við Efstaleitið nú í dag. Einn af öðrum eru starfsmenn boðaðir á fund yfirstjórnar á 5. hæð og þeim afhent uppsagnarbréf. Nú rétt í þessu var fréttamanninum Jóhannesi Kr. Kristjánssyni sagt upp störfum og hefur Vísir heimildir fyrir því að það leggist ekki vel í liðsmenn Kastljóssins, sem hafa lagt upp úr rannsóknarblaðamennsku, og telja þáttinn með þessu vængbrotinn. Jóhannes átti til að mynda mikinn þátt í afhjúpandi umfjöllun þáttarins um barnaníðinginn Karl Vigni Þorsteinsson – sem vakti mikla athygli.

Þá hefur Vísir heimildir fyrir því að Lindu Blöndal, sem starfað hefur við Ríkisútvarpið lengur en elstu menn muna, og stjórnar nú morgunþætti Rásar 2 ásamt Bergsteini Sigurðssyni, hafi verið sagt upp nú fyrir skömmu.

Uppsagnirnar hafa lagst illa í marga og hefur þegar verið stofnuð sérstök síða á netinu, undirskriftasöfnun, þar sem þeim er mótmælt og menntamálaráðuneytið hvatt til aðgera svo draga megi þær til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×