Erlent

Quarashi ferðaðist með barnaníðingnum Watkins

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hljómsveitin Quarashi fór í tónleikaferðalag með hljómsveitinni Lostprophets. Söngvari Lostprophets, Ian Watkins, játaði í dag að hafa framið fjölda kynferðisbrota gegn börnum.

Tónleikaferðalagið var um vesturströnd Bandaríkjanna og var á vegum sjónvarpsstöðvarinnar MTV2 í mars 2002.

Einn meðlima Quarashi, Ómar Örn Hauksson, skrifaði á Facebook síðu sína í dag: „Ekkert sérlega gaman að segja frá því að við Quarashi drengir túruðum með þessu ógeði á sínum tíma. Djöfulsins viðbjóðs mann aumingi.“

Ómar minnist þess ekki að hafa talað sérstaklega við Watkins. Aðspurður um hvernig hafi verið að heyra af málinu segir Ómar að þetta sé bara viðbjóðslegt að öllu leyti. „Það er ekki eins og þetta sé einhver vinur minn sem ég hafi þekkt, þetta er bara skíthæll sem ég var að túra með á einhverju tímabili. Ég hef voða lítið um málið að segja annað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×