Innlent

Samtök tónlistarfélaga og útgefenda mótmæla niðurskurði RÚV

Stefán Árni Pálsson skrifar
Samtónn, samtök tónlistarfélaga og útgefenda,  sem vinna að sameiginlegum hagsmunamálum tónlistarmanna hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem samtökin mótmæla þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað innan Ríkisútvarpsins.

Samtónn gerir þá kröfu að Ríkisútvarpinu verði gert kleift að sinna menningarlegri skyldu sinni gagnvart almenningi.

„Með þeim breytingum og niðurskurði sem gerðar hafa verið á starfsemi tónlistardeildar Rásar 1 nú fyrir skömmu er ljóst að starfsemi RÚV muni verða fyrir  verulegum skakkaföllum. Stofnuninni verður gert nær ómögulegt að sinna því mikilvæga menningarlega hlutverki sem hún hefur sinnt á undaförnum árum og áratugum. Sú þögn sem mun myndast í íslensku tónlistarlífi við þessar breytingar mun verða í framtíðinni vitnisburður um þá menningarstjórnun  sem á sér stað í dag í tengslum við Ríkisútvarpið – vitnisburður um skilningsleysi þeirra sem sitja í stjórnunarstöðum í þjóðfélaginu á mikilvægi íslenskrar menningar í dag  fyrir almenning á sviði tónlistar. Í stjórn Samtóns sitja fulltrúar alls tónlistarfólks á Íslandi og er það skýlaus krafa þeirra að stjórnvöld og stjórnendur RÚV dragi til baka þessar aðgerðir og geri RÚV - útvarpi allra landsmanna – kleift að sinna sínu mikilvæga hlutverki áfram á sviði menningar, varðveislu  og upplýsingamiðlunar -  sem það hefur sinnt allar götur frá árinu 1930,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

Kjartan Ólafsson , formaður Samtóns, skrifar undir yfirlýsinguna fyrir hönd stjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×