Sport

Seattle ósigrandi á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Russell Wilson fagnar sigrinum í nótt.
Russell Wilson fagnar sigrinum í nótt. Mynd/AP
Russell Wilson og félagar hans í Seattle Seahawks sýndu að þeir eru til alls líklegir í úrslitakeppninni í NFL-deildinni í Bandaríkjunum eftir afar sannfærandi sigur á New Orleans Saints á heimavelli.

Seattle vann uppgjör tveggja sterkustu liða Þjóðardeildarinnar (NFC) í mánudagsleik NFL-deildarinnar í nótt, 34-7, og tryggði sér þar með sæti í úrslitakeppninni sem hefst í janúar.

Seattle hefur aðeins tapað einum leik allt tímabilið og er með besta árangur allra liða í deildinni, auk þess að hafa tveggja leikja forystu á önnur lið í NFC. Aðeins stórslys kemur í veg fyrir að Seattle verður með heimaleikjarétt út alla úrslitakeppnina en Seattle tapaði síðast leik á heimavelli árið 2011.

Leikstjórnandinn Wilson, sem er á sínu öðru ári í deildinni, var algjörlega magnaður í leiknum og tætti annars sterka vörn Saints í sig. Hann kastaði samtals 310 jarda í leiknum, þar af fyrir þremur snertimörkum.

Drew Brees, leikstjórnandi New Orleans, náði sér engan veginn á strik fyrir framan stuðningsmenn Seattle sem eru þekktir fyrir að vera með gríðarleg læti á leikjum síns liðs og gera þar með aðkomaliðum lífið leitt.

Brees kastaði aðeins 147 jarda í leiknum en sóknarleikur liðsins komst í raun aldrei í gang. Eina snertimark liðsins skoraði innherjinn Jimmy Graham sem hefur verið jafnbesti leikmaður Saints á tímabilinu.

Sókn Saints náði aðeins 188 jördum alls en það er slakasti árangur liðsins undir stjórn Sean Payton sem tók við Saints árið 2006.

Saints hefur nú unnið níu af tólf leikjum sínum á tímabilinu og er með næstbesta árangur allra liða í NFC ásamt Carolina Panthers.

Hér má sjá samantekt úr leiknum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×