„Ég er svo ótrúlega glaður og hamingjusamur með að vera á þessum lista,“ sagði Mazen Maarouf, einn þeirra 19 sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til að fái íslenskan ríkisborgararétt. Tilfinningarnar báru hann ofurliði og hann hálfpartinn grét í samtali við blaðamann. Mazen vill þó ekki tjá sig frekar fyrr en frumvarpið hefur verið samþykkt af Alþingi.
Mazen er ljóðskáld frá Palestínu og var bjargað hingað til lands árið 2011 af samtökunum ICORN í samstarfi við Reykjavíkurborg, eftir að honum bárust lífshótanir vegna blaðaskrifa sinna um stjórnmál í Mið-Austurlöndum.
Hann er palestínskur að uppruna, en hefur alla tíð haft stöðu flóttamanns í Líbanon, þar sem hann fæddist árið 1978. Mazen lauk meistaranámi í efnafræði frá raunvísindadeild Háskólans í Líbanon, en sneri sér fljótlega að ritlist og fyrsta ljóðabókin hans kom út árið 2000. Hann gaf út ljóðabókina, Ekkert nema strokleður, í september síðastliðnum.
Hér að neðan er hægt að sjá heimildamynd sem fjölmiðillinn Al-Jazeera gerði um Mazen.
Innlent