Viðskipti innlent

Allir sakborningar áfrýja niðurstöðu í Al-Thani máli

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson einn sakborninga í Al-Thani málinu ásamt verjanda sínum, Herði Felix Harðarsyni, t.v.
Hreiðar Már Sigurðsson einn sakborninga í Al-Thani málinu ásamt verjanda sínum, Herði Felix Harðarsyni, t.v. 365/GVA
Allir sakborningar í Al-Thani málinu ætla að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Málsvarnarlaun sem Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings var dæmdur til að greiða verjanda sínum við í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani málinu eru hæstu málsvarnarlaun sem dæmd hafa verið í sakamáli hér á landi.

Sjálfgefið að áfrýja

„Dómurinn er vonbrigði og kemur á óvart af mörgum ástæðum. Það er sjálfgefið að honum verður áfrýjað,“ segir Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar.

Ólafur Ólafsson sendi tilkynningu í gær þar sem hann sagðist þegar hafa tekið ákvörðun um áfrýjun. Þá ætla Magnús Guðmundsson og Sigurður Einarsson einnig að áfrýja dómnum. Þetta kemur ekki á óvart enda er dómur yfir Hreiðari Má og Sigurði þyngsti dómur sem fallið hefur í efnahagsbrotamáli hér á landi.

Hæstu málsvarnarlaun sem hafa verið dæmd hér á landi

Málsvarnarlaun sem Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings var dæmdur til að greiða verjanda sínum í Al-Thani málinu eru hæstu málsvarnarlaun sem dæmd hafa verið í sakamáli hér á landi, eftir því sem fréttastofan kemst næst.

Hreiðar Már sem var fundinn sekur um umboðssvik og markaðsmisnotkun var dæmdur í 5 og hálfs árs fangelsi og þá þarf hann að greiða verjanda sínum Herði Felix 33,5 milljónir króna í málsvarnarlaun. Svo virðist sem dómurinn hafi dæmt í öllum tilvikum málsvarnarlaun í samræmi við tímaskýrslu verjenda. Verjendur fengu dæmdar samtals 88,7 milljónir króna í málsvarnarlaun þegar dómurinn var kveðinn upp í gær.

Há málsvarnarlaun í sakamáli hér á landi eru ekki óþekkt. Þannig voru Gesti Jónssyni, verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, dæmdar 20,9 milljónir króna í málsvarnarlaun á báðum dómstigum í Baugsmálinu hinn 5. júní 2008 og greiddust þau úr ríkissjóði þar sem sýknað var af flestum ákæruliðum. 

Ítarefni: 

Þungur dómur yfir Kaupþingsmönnum

Fréttaskýring um Al-Thani málið

Ragnar og Gestur misbuðu virðingu dómsins







Fleiri fréttir

Sjá meira


×