Enski boltinn

Flýtti brúðkaupinu í von um sæti í landsliðshóp Englands

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Adam Lallana ætlar ekki að gefa upp vonina að vera í flugvélinni sem fer með enska landsliðið til Brasilíu á HM á næsta ári. Lallana sem hefur staðið sig vel með Southampton á tímabilinu spilaði fyrsta landsleik sinn í nóvember.

Hinn 25 ára Lallana spilaði aðeins einn leik með U-21 árs landsliði Englendinga á sínum tíma en fékk eldskírn sína með landsliðinu  í nóvember þegar hann byrjaði báða æfingarleiki liðsins gegn Síle og Þýskalandi.

Lallana var búinn að ákveða að giftast verðandi eiginkonu sinni, Emily Jubb á fyrsta leikdegi Englendinga í Brasilíu. Lallana flýtti fyrir brúðkaupinu og hélt lítið brúðkaup sem kostaði aðeins rúmlega nítíu þúsund krónur. Hann ætti því að vera laus ef Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins ákveður að taka hann með til Brasilíu.

Stutt er síðan annað slíkt mál kom upp, John Ruddy, markmaður Norwich frestaði brúðkaupi sínu þegar hann var valinn í leikmannahóp enska landsliðsins fyrir EM 2012. Ruddy varð hinsvegar fyrir því óláni á æfingum fyrir mót að brjóta baugfingurinn og gat því ekki farið með enska landsliðinu á mótið né haldið brúðkaup. Nú er að sjá hvort Lallana lendi í sömu óförum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×