Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, mun nú í haust kenna á námskeiði við Háskóla Íslands um smáþjóðir og hvernig þeim farnast í alþjóðakerfinu.
Námskeiðið fer fram á ensku enda margir stúdentanna erlendis frá.
Síðastliðið vor kenndi Jón Baldvin sambærilegt námskeið við Alþjóðamálastofnun háskólans í Vilníus í Litháen.
Tildrögin voru þau að síðastliðið haust var hann heiðursgestur á þingi Eystrasaltsþjóða og flutti þar stefnuræðu um hina alþjóðlegu fjármálakreppu og kreppuna á evrusvæðinu sérstaklega.
„Þar færði ég rök fyrir því að hið alþjóðlega fjármálakerfi væri fársjúkt,“ segir Jón Baldvin. „Eftirlitslausar fjárglæfrastofnanir væru að kafsigla hvert þjóðríkið á fætur öðru. Ef ekkert yrði að gert myndu tíðar fjármálakreppur tröllríða alþjóðahagkerfinu í náinni framtíð með ófyrirsjáanlega hörmulegum afleiðingum. Afleiðingarnar blasa nú þegar við. Þær birtast í sívaxandi misskiptingu auðs og tekna innan einstakra þjóðfélaga.“
Í framhaldi af erindinu var Jón Baldvin beðinn um að útfæra þessar kenningar nánar á námskeiði við háskólann í Vilníus.
