Innlent

Casper kannast ekki við fullyrðingar Gests

Kristján Hjálmarsson skrifar
Gestur Valur sagðist vera að klára handrit fyrir Adam Sandler og hefði vinnuaðstöðu hjá Casper Christensen.
Gestur Valur sagðist vera að klára handrit fyrir Adam Sandler og hefði vinnuaðstöðu hjá Casper Christensen.

„Já, ég veit hver hann er, en hann hefur hefur aldrei unnið hjá mér og hann er ekki með vinnuaðstöðu hjá mér," segir danski grínistinn Casper Christensen um Íslendinginn Gest Val Svansson.

Gestur Valur, sem skrifaði handritið að Tríó-þáttunum, sagðist í samtali við Fréttablaðið í byrjun árs að hann væri búinn að selja sína fyrstu bíómynd í fullri lengd til Hollywood og að kaupandinn væri enginn annar en bandaríski grínistinn Adam Sandler.

„Það má segja að ég byrji á toppnum enda er þetta draumur að rætast," hafði Fréttablaðið eftir Gesti Val þá. Myndin bæri vinnuheitið The Last Orgasm en Gestur Valur sagðist ekki mega tjá sig nánar um söguþráð myndarinnar. Þá sagðist Gestur Valur hafa komist í kynni við Sandler í gegnum vin sinn - danska grínistann Casper Christensen, sem er best þekktur yfir hlutverk sitt í Klovn-þáttunum.

„Ég fór á fundinn ásamt Casper, en báðir vorum við með þrjár hugmyndir hvor til að kynna fyrir Sandler. Sá fundur gekk ágætlega en honum leist best á eina hugmynd hjá mér sem hann bað mig um að þróa áfram," hafði Fréttablaðið eftir Gesti Val. Þá sagðist Gestur sjá sjálfur um að skrifa handritið ásamt meðhöfundum frá Hollywood og að hann væri kominn með vinnuaðstöðu hjá Casper Christensen í Kaupmannahöfn.

Casper segist vita hver Gestur Valur er. „Hann hefur hefur aldrei unnið hjá mér og hann er ekki með vinnuaðstöðu hjá mér," segir Casper. „Ég hef heldur ekki séð þetta handrit."

Segir málið í ferli

Gestur Valur hefur ekki svarað símtölum frá fréttastofu í dag. Á mánudaginn sagði hann málið í ferli. „Ég var að senda frá mér fyrsta uppkast og bíð nú eftir svörum frá þeim. Á þó von á því að þetta taki smá tíma, maður veit aldrei. Ég ætla að vinna í stuttmynd í sumar, það er næst á dagskrá," sagði Gestur Valur á mánudaginn.

Fékk pening frá íslenskum athafnamönnum

Í DV í dag kemur fram að nokkrir íslenskir athafnamenn hafi lagt Gesti Val til peninga vegna verkefnisins. Hann hafi vantað fjármagn til að ljúka við handritið og lofað greiðslum þegar peningarnir kæmu að utan.

DV hafði samband við Heather Parry, kvikmyndaframleiðanda sem vinnur hjá framleiðslufyrirtæki Adam Sandler. Hún kom af fjöllum þegar blaðamaður spurði hana út samstarf Gests Vals og Sandlers. „Við erum ekki að vinna með honum," hefur DV eftir Parry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×