Lífið

Okkur finnst þetta skelfilegt uppátæki

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Sigrún Daníelsdóttir segir heilsu og velferð verða út undan í þáttum eins og The Biggest Loser.
Sigrún Daníelsdóttir segir heilsu og velferð verða út undan í þáttum eins og The Biggest Loser. Mynd/Ernir
Skjár 1 hefur sýningar á þættinum The Biggest Loser í haust. Skiptar skoðanir eru um ágæti þáttarins. 

„Við höfum rætt þetta í samtökunum og okkur finnst þetta skelfilegt uppátæki," segir Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og formaður Samtakanna um líkamsvirðingu. Skjár 1 tilkynnti það fyrr í vikunni að sýningar á íslenskri útgáfu raunveruleikaþáttarins The Biggest Loser hæfust í haust og að byrjað væri að taka við umsóknum.

Ansi skiptar skoðanir spruttu fram á íslenskum vefmiðlum í kjölfarið. Þátturinn snýr að fólki í yfirþyngd sem keppist innbyrðis að því að missa sem flest kíló og mun sá sem stendur uppi sem sigurvegari hljóta veglega peningaupphæð að launum. Sigrún segir að þættirnir séu þekktir fyrir rosalega hörku.

„Fólk er látið ganga fram af sér hvað varðar æfingaálag og öfgamegrun. Það er líka gert út á niðurlægingu, fólk er skammað og því refsað. Þegar allt kapp er lagt á að missa sem flest kíló verða heilsa og velferð oft út undan," segir Sigrún. Ríflega 600 manns höfðu sent inn umsókn í þáttinn í gær. Þó hefur borið á því að margir hafi sent inn umsóknir í gríni, líkt og gerðist með Ungfrú Ísland á dögunum. Ekki náðist í Ingu Lind Karlsdóttur, umsjónarmann þáttarins, við vinnslu fréttarinnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.