Innlent

Herfileg niðurstaða úr nýrri PISA-könnun

Jakob Bjarnar skrifar
Júlíus K. Björnsson. Enn versnar ástandið í íslenska skólakerfinu og tossum fjölgar.
Júlíus K. Björnsson. Enn versnar ástandið í íslenska skólakerfinu og tossum fjölgar.
Niðurstöður nýrrar PISA rannsóknar sýna að enn hallar á ógæfuhliðina í íslenska skólakerfinu. Kynjamunur hefur aldrei mælst meiri, drengjum í óhag.

Námsmatsstofnun heldur nú kynningarfund um niðurstöður OECD PISA 2012 þar sem greint er frá niðurstöðum rannsóknar en áherslan að þessu sinni er á frammistöðu í stærðfræðilæsi auk frammistöðu 15 ára nemenda í lesskilningi og náttúrulæsi. Skemmst er frá því að segja að niðurstaðan er sláandi; Enn hallar á ógæfuhliðina, íslensk ungmenni standa talsvert að baki jafnöldrum sínum í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

„Þetta lítur almennt þannig út að frammistaðan fer versnandi,“ segir Júlíus K. Björnsson forstöðumaður Námsmatsstofnunar, sem framkvæmdi rannsóknina fyrir hönd Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Enn og aftur kemur á daginn að stærðfræðikunnátta íslenskra nemenda er ekki ásættanleg. „Sem og lesskilningur og náttúrulæsi. Þetta er allt saman á niðurleið.“ Júlíus segir menn ekki með það fyrirliggjandi nákvæmlega hvað valdi þessum – það er næsta verkefni að finna út úr því. „Við höfum ósköp fáar vísbendingar um það. Svo er munur á landsbyggð og höfuðborgarsvæði, meiri en hann hefur verið áður þannig að landsbyggðin er að gefa eftir hressilega. Það hallar jafnframt á ógæfuhliðina með strákana. Þeir eru fremur daprir bæði í stærðfræði og í lestri.“ Kynjamunur hefur aldrei mælst jafn mikill.

PISA-rannsóknin er framkvæmd á þriggja ára fresti og gefur vísbendingar um breytingar á frammistöðu nemenda yfir tíma ásamt því að meta stöðu þeirra við lok skyldunáms. Þetta er í fimmta sinn sem niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar og eru menn að greina sömu þróun og hefur verið hefur. „Já, þetta ýkist aðeins. Það verður enginn glaður að sjá þessa niðurstöðu en svona er þetta nú samt,“ segir Júlíus

Finna má könnunina hér en frammistaða íslenskra nemenda versnar verulega frá 2009 og sé horft til PISA-mælinga frá upphafi, hefur nemendum hrakað sem nemur um hálfu skólaári á síðasta áratug.

Frammistaða íslenskra nemenda versnar verulega frá 2009 og sé horft til allra PISA mælinga frá upphafi, þá hefur nemendum hrakað sem nemur um hálfu skólaári á síðasta áratug. Úr skýrslunni:



  • Ísland ásamt Svíþjóð er með lökustu frammistöðu allra Norðurlandanna.
  • Verulegur munur er á höfuðborgarsvæði og landsbyggð í öllum greinum og hefur afturförin orðið mest á landsbyggðinni þó svo höfuðborgarsvæðið hafi einnig látið undan síga.
  • Kynjamunur er ekki meiri en áður hefur mælst.
  • Piltum hefur farið verulega aftur í lesskilningi og stærðfræðilæsi, og eru nú um 30% þeirra á tveimur neðstu þrepum lesskilnings og um 20% á neðstu þrepum stærðfræðilæsis.
  • Frammistaða íslenskra nemenda í náttúrufræðilæsi er sú lakasta af öllum Norðurlöndunum.
  • Mikill munur er á frammistöðu infæddra og innflytjenda í öllum greinum.
  • Ennþá er mikill jöfnuður á Íslandi, munur á milli skóla er hvergi minni en hér á landi.
  • Skólabragur og viðhorf nemenda til náms hafa batnað verulega frá því sem áður var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×