Innlent

„Samfélagið brást honum“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Ég er pínu reið eftir á,“ segir hún. Ef yfirvöld vissu af þessum manni og að hann væri svona veikur af hverju var hann þá settur í blokk með fjölskyldufólki, spyr Kristen Mary Swenson, íbúi í Hraunbæ.
"Ég er pínu reið eftir á,“ segir hún. Ef yfirvöld vissu af þessum manni og að hann væri svona veikur af hverju var hann þá settur í blokk með fjölskyldufólki, spyr Kristen Mary Swenson, íbúi í Hraunbæ. mynd/Stefán Karlsson
„Af hverju var þessi maður ekki á stofnun, mér finnst við hafa brugðist honum, samfélagið hefur brugðist honum,“ segir Kristen Mary Swenson, íbúi í Hraunbæ, þar sem hinir skelfilegu atburðir áttu sér stað í gær. Hún segir að það sé sorglegt fyrir alla að ekki séu til úrræði fyrir menn sem glími við slík vandamál.

Þjóðfélagið hafi brugðist manninum og yfirvöld. Maðurinn hafi fengið að vera í félagslegri íbúð þar sem hann hafi verið skilinn eftir einn með sín veikindi.

„Hvað var maðurinn að gera með haglabyssu?“ spyr hún. Hún hafi lesið um það í morgun að maðurinn hefði verið undir eftirliti og að hann hafi áður otað byssu framan í lögreglumann. „Það fer svolítið fyrir haglabyssu, það er ekki eitthvað sem maður felur svo glatt í vasanum,“ segir hún. „Hvar var eftirlitið?“

„Ég er pínu reið eftir á,“ segir hún. Ef yfirvöld vissu af þessum manni og að hann væri svona veikur af hverju var hann þá settur í blokk með fjölskyldufólki, spyr hún.  Talsvert vesen hafi verið vegna mannsins, hann hafi til dæmis gengið á milli bíla og barið í þá og keyrt um fullur.

Hún segir engan hafa komið til að ræða við þau um það sem gerðist. Allar upplýsingar sem þau hafi fengið séu úr fjölmiðlum. Hún telur að einhverskonar áfallahjálp ætti að vera í boði fyrir þá sem urðu vitni að þessu. „Strákurinn minn sem er 18 ára  kom til mín í gærkvöldi og sagði við mig að honum liði eins og það hefði einhver verið myrtur í húsinu. Hvað á maður að segja, já myrtur? Hann var skotinn!“ segir Kristen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×