Laufey Skúladóttir, bóndi á Stórutjörnum, útbýr borðskreytingar og kransa úr lyngi og greinum. Henni finnst best að binda kransana strax á haustin og geyma þá í frysti fram að jólum. Eftir það geta skreytingarnar jafnvel staðið fram á sumar.
Ég geri yfirleitt skreytingarnar mínar á haustin. Ég fer þá bara út og bind kransana niðri í laut, og úr því hráefni sem ég finn þar. Ég geri þetta til að njóta útiverunnar og náttúrunnar og þannig er ég ekki að taka með mér mikið hráefni heim sem ég nota kannski ekki.
Þegar kransinn er tilbúinn fer ég með hann heim og skelli honum bara í frysti fram að aðventunni,“ segir Laufey Skúladóttir, bóndi á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði og handverkskona.
Í skreytingarnar notar Laufey gjarnan sortulyng og krækiberjalyng, beitilyng og fjalldrapa og skreytir með könglum. Hún segir lyngið haldast stinnt og ferskt í frosti fram á aðventuna og sniðugt sé að safna lyngi í kassa að hausti og frysta.
„Þannig er það eins og nýtt þegar á að fara að nota það. Þó er ekki gott að láta lyngið þiðna og frysta aftur oft. Best er að taka einungis úr frystinum það lyng sem á að nota í hvert skipti. Kransinn getur þá staðið alveg fram á næsta sumar ef því er að skipta. Til að hann endist lengi spreyja ég oft yfir hann, stundum með hárlakki en einnig er hægt að kaupa sérstakt sprey í blómabúðum sem herðir lyngið.“
Laufey rekur handverksgalleríið Surtlu á bæjarhlaðinu við Stórutjarnir ásamt Hrönn Sigurðardóttur og Sigríði Karlsdóttur, þar sem þær selja eigið handverk. Þá heldur Laufey einnig námskeið í skreytingagerð og ullarvinnslu og kennir meðal annars að útbúa jólaskreytingar úr þæfðri ull.
Nánar má forvitnast um skreytingar Laufeyjar á Surtla hönnun á Facebook.
Keflavík
Grindavík