Náttúru-Perlan Guðmundur Andri Thorsson skrifar 26. ágúst 2013 08:00 Eigi að lýsa stefnu Íslendinga í skipulags- og byggingamálum í einni setningu gæti hún kannski verið: „húsið fyrir húsið“ – svona eins og „listin fyrir listina“. Íslendingar reisa hús fyrir ánægjuna af því að reisa húsið (og náttúrlega framlagið úr Íbúðalánasjóði sem gjaldþrota félag mun svo ekki geta greitt) en hirða síður um þau not sem hafa má af byggingunni þegar hún er risin. Um þetta eru mörg átakanleg og forljót dæmi, einkum á seinni árum. En kannski er Perlan hið klassíska dæmi um hús sem reist er án annars takmarks eða tilgangs en að „tjá sig“. Og fögur er hún. Við horfum á hana í tignarlegu umkomuleysi sínu þar sem hún stendur í Öskjuhlíðinni, og snýst í hringi kringum sjálfa sig eins og tilbeiðsluhús án guðdóms, stórleikari án hlutverks, fullbúið svið án leikrits.Ný náttúruskynjun Það hlaut að koma að því að við fyndum út úr því hvað við eigum eiginlega að gera við þetta óvenjulega og fallega kennileiti Reykjavíkur, sem á sér upphaf í hinum geníala kolli Kjarvals og hefur á sér ævintýrabrag listaverksins, því að eins og við vitum er öll góð list vita tilgangslaus. Auðvitað á Perlan að hýsa einhver ævintýri – eitthvað sem okkur þykir vænt um – eitthvað fallegt og sterkt. Auðvitað á Perlan að hýsa náttúrugripasafnið og vera hús náttúrunnar hér á höfuðborgarsvæðinu. Það blasir við um leið og einhver lætur sér detta það í hug. Vart verður staðsetningin betri, miðsvæðis með góðri fjallasýn; tré og kátar kanínur allt í kring og ljúfir lúpínuálfar stökkvandi í bláu blómahafinu. Húsið er svolítið ævintýralegt að koma inn í en svo er eitthvað svo mikið Ekkert þar inni eins og er. Það býður samt upp á ómælda möguleika. Með því að virkja nútímatækni og hafa að leiðarljósi hugkvæmni, útsjónarsemi og frumleika – og ást á náttúrunni og löngun til að deila undrum hennar – má gera þarna safn sem verðugt er íslenskri náttúru. Meðal þess sem breyst hefur hægt og rólega í íslenskri þjóðarvitund á seinustu áratugum er hlutur náttúrunnar í hugmyndinni um að tilheyra því mengi sem kallað er að vera Íslendingur. Þetta eigum við öll sameiginlegt, hægri sinnuð og vinstri sinnuð, markaðshyggjufólk og félagslausnafólk, Reykvíkingar og „landsbyggðarfólk“. Við sækjum til náttúrunnar orku og tilfinningu fyrir rými. Á fjöllum komumst við í tæri við tignina sjálfa, skynjum ómælið, heyrum þögn almættisins. Þetta verður æ mikilvægari þáttur í sjálfsmynd þéttbýlisbúanna sem hafa raðað sér niður við sjávarsíðuna. Í æ ríkari mæli er fólk farið að líta á náttúruna þeim augum að hún hafi gildi í sjálfri sér fyrst og fremst og í öðru lagi hafi hún gildi fyrir okkur mennina, ekki bara með gjöfum sínum til sjós og lands, sem eru ærnar og langtum meiri en nóg fyrir okkur, heldur líka í nærveru sinni í lífi okkar, í því að hægt sé að vitja hennar, á forsendum hennar; hægt sé að ganga á vit hennar, að læk, í hlíð, á fjall, að fossi, leggjast í fjalldrapa og lyng og finna ilminn. Æ fleiri gera sér grein fyrir því hversu mikilsvert og sérstakt er að búa í landi með stærsta ómanngerða svæði Evrópu og hvernig þangað má sækja unað og andlega orku fyrir einstaklingana, ekkert síður en raforku handa álverum. Þeim fjölgar sem átta sig á því að Íslendingar geta einmitt lifað af fjallagrösum – haldi þeir rétt á málum – með því að umgangast náttúru sína af virðingu og varfærni geta þeir laðað til sín allt það fólk í heiminum sem þyrstir í að upplifa slík ómanngerð svæði – og það fólk er ófátt og það á eftir að marg- marg- margfaldast.Hús í púpu Perlan sem náttúrugripasafn getur haft gildi fyrir það fólk líka. Þegar erlendir ferðamenn koma til höfuðborgarinnar væri sómi að því að geta boðið upp á veglegt og gott safn um náttúru Íslands þar sem nýjasta margmiðlunargaldri væri beitt. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Enginn sem upplifði sýninguna í Íslenska skálanum á bókamessunni í Frankfurt, þar sem öllum áhrifsbrögðum nútímatækni var beitt mun gleyma þeirri allt að því trúarlegu stemmningu sem þar ríkti meðal þeirra fjölmörgu gesta sem sátu agndofa og horfðu á myndir úr íslenskri náttúru og hlýddu á fagra tóna eftir Hilmar Örn Hilmarsson. Enginn mun efast um að safn sem býður upp á slíka upplifun á eftir að standa vel undir sér. Stundum rölti ég mér út á Granda, geri mér eitthvert erindi framhjá húsinu hans Gröndals sem þar stendur innpakkað í bárujárn eins og vitnisburður um það hvernig Reykvíkingar fara með sín skáldahús, ólíkt Akureyringum sem kunna að umgangast sín menningarverðmæti. Inni í ryðguðum bárujárnshjúpnum er sem sé fallega og skemmtilega húsið hans Gröndals – ein af gersemum Reykjavíkur sem menn hafa enn ekki fundið rétta braskvinkilinn á og stendur því þarna eins og litfagurt fiðrildi lokað inni í ljótri púpu. Í því húsi voru geymd fyrstu drögin að náttúrugripasafni. Seinna var safnið haft í Safnahúsinu við Hverfisgötu, og má segja að Íslendingar hafi staðið sig betur í þessum efnum upp úr aldamótunum 1900 en aldamótunum 2000 þegar þeir voru orðnir of ríkir til að hafa efni á nokkrum hlut. Í nokkur ár var safnið geymt í húsnæði Náttúrufræðistofnunar við Hlemm en um árabil hefur það verið á hrakhólum. Það væri vitnisburður um vitundarvakningu Íslendinga ef þeir hefðu nú eftir öll þessi ár manndóm í sér að koma upp sómasamlegu náttúrugripasafni. Þar hentar Perlan vel – og gæti á sína vísu orðið eins og litfagurt fiðrildi sem loks sleppur úr sinni púpu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Gerum betur Hilmar Björnsson Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Geðrænn vandi barna og ungmenna Eldur S. Kristinsson Skoðun
Eigi að lýsa stefnu Íslendinga í skipulags- og byggingamálum í einni setningu gæti hún kannski verið: „húsið fyrir húsið“ – svona eins og „listin fyrir listina“. Íslendingar reisa hús fyrir ánægjuna af því að reisa húsið (og náttúrlega framlagið úr Íbúðalánasjóði sem gjaldþrota félag mun svo ekki geta greitt) en hirða síður um þau not sem hafa má af byggingunni þegar hún er risin. Um þetta eru mörg átakanleg og forljót dæmi, einkum á seinni árum. En kannski er Perlan hið klassíska dæmi um hús sem reist er án annars takmarks eða tilgangs en að „tjá sig“. Og fögur er hún. Við horfum á hana í tignarlegu umkomuleysi sínu þar sem hún stendur í Öskjuhlíðinni, og snýst í hringi kringum sjálfa sig eins og tilbeiðsluhús án guðdóms, stórleikari án hlutverks, fullbúið svið án leikrits.Ný náttúruskynjun Það hlaut að koma að því að við fyndum út úr því hvað við eigum eiginlega að gera við þetta óvenjulega og fallega kennileiti Reykjavíkur, sem á sér upphaf í hinum geníala kolli Kjarvals og hefur á sér ævintýrabrag listaverksins, því að eins og við vitum er öll góð list vita tilgangslaus. Auðvitað á Perlan að hýsa einhver ævintýri – eitthvað sem okkur þykir vænt um – eitthvað fallegt og sterkt. Auðvitað á Perlan að hýsa náttúrugripasafnið og vera hús náttúrunnar hér á höfuðborgarsvæðinu. Það blasir við um leið og einhver lætur sér detta það í hug. Vart verður staðsetningin betri, miðsvæðis með góðri fjallasýn; tré og kátar kanínur allt í kring og ljúfir lúpínuálfar stökkvandi í bláu blómahafinu. Húsið er svolítið ævintýralegt að koma inn í en svo er eitthvað svo mikið Ekkert þar inni eins og er. Það býður samt upp á ómælda möguleika. Með því að virkja nútímatækni og hafa að leiðarljósi hugkvæmni, útsjónarsemi og frumleika – og ást á náttúrunni og löngun til að deila undrum hennar – má gera þarna safn sem verðugt er íslenskri náttúru. Meðal þess sem breyst hefur hægt og rólega í íslenskri þjóðarvitund á seinustu áratugum er hlutur náttúrunnar í hugmyndinni um að tilheyra því mengi sem kallað er að vera Íslendingur. Þetta eigum við öll sameiginlegt, hægri sinnuð og vinstri sinnuð, markaðshyggjufólk og félagslausnafólk, Reykvíkingar og „landsbyggðarfólk“. Við sækjum til náttúrunnar orku og tilfinningu fyrir rými. Á fjöllum komumst við í tæri við tignina sjálfa, skynjum ómælið, heyrum þögn almættisins. Þetta verður æ mikilvægari þáttur í sjálfsmynd þéttbýlisbúanna sem hafa raðað sér niður við sjávarsíðuna. Í æ ríkari mæli er fólk farið að líta á náttúruna þeim augum að hún hafi gildi í sjálfri sér fyrst og fremst og í öðru lagi hafi hún gildi fyrir okkur mennina, ekki bara með gjöfum sínum til sjós og lands, sem eru ærnar og langtum meiri en nóg fyrir okkur, heldur líka í nærveru sinni í lífi okkar, í því að hægt sé að vitja hennar, á forsendum hennar; hægt sé að ganga á vit hennar, að læk, í hlíð, á fjall, að fossi, leggjast í fjalldrapa og lyng og finna ilminn. Æ fleiri gera sér grein fyrir því hversu mikilsvert og sérstakt er að búa í landi með stærsta ómanngerða svæði Evrópu og hvernig þangað má sækja unað og andlega orku fyrir einstaklingana, ekkert síður en raforku handa álverum. Þeim fjölgar sem átta sig á því að Íslendingar geta einmitt lifað af fjallagrösum – haldi þeir rétt á málum – með því að umgangast náttúru sína af virðingu og varfærni geta þeir laðað til sín allt það fólk í heiminum sem þyrstir í að upplifa slík ómanngerð svæði – og það fólk er ófátt og það á eftir að marg- marg- margfaldast.Hús í púpu Perlan sem náttúrugripasafn getur haft gildi fyrir það fólk líka. Þegar erlendir ferðamenn koma til höfuðborgarinnar væri sómi að því að geta boðið upp á veglegt og gott safn um náttúru Íslands þar sem nýjasta margmiðlunargaldri væri beitt. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Enginn sem upplifði sýninguna í Íslenska skálanum á bókamessunni í Frankfurt, þar sem öllum áhrifsbrögðum nútímatækni var beitt mun gleyma þeirri allt að því trúarlegu stemmningu sem þar ríkti meðal þeirra fjölmörgu gesta sem sátu agndofa og horfðu á myndir úr íslenskri náttúru og hlýddu á fagra tóna eftir Hilmar Örn Hilmarsson. Enginn mun efast um að safn sem býður upp á slíka upplifun á eftir að standa vel undir sér. Stundum rölti ég mér út á Granda, geri mér eitthvert erindi framhjá húsinu hans Gröndals sem þar stendur innpakkað í bárujárn eins og vitnisburður um það hvernig Reykvíkingar fara með sín skáldahús, ólíkt Akureyringum sem kunna að umgangast sín menningarverðmæti. Inni í ryðguðum bárujárnshjúpnum er sem sé fallega og skemmtilega húsið hans Gröndals – ein af gersemum Reykjavíkur sem menn hafa enn ekki fundið rétta braskvinkilinn á og stendur því þarna eins og litfagurt fiðrildi lokað inni í ljótri púpu. Í því húsi voru geymd fyrstu drögin að náttúrugripasafni. Seinna var safnið haft í Safnahúsinu við Hverfisgötu, og má segja að Íslendingar hafi staðið sig betur í þessum efnum upp úr aldamótunum 1900 en aldamótunum 2000 þegar þeir voru orðnir of ríkir til að hafa efni á nokkrum hlut. Í nokkur ár var safnið geymt í húsnæði Náttúrufræðistofnunar við Hlemm en um árabil hefur það verið á hrakhólum. Það væri vitnisburður um vitundarvakningu Íslendinga ef þeir hefðu nú eftir öll þessi ár manndóm í sér að koma upp sómasamlegu náttúrugripasafni. Þar hentar Perlan vel – og gæti á sína vísu orðið eins og litfagurt fiðrildi sem loks sleppur úr sinni púpu.