Innlent

„Skelfilegur dómur“

Heimir Már Pétursson skrifar
Kristinn (t.h.) segir dóminn fela í sér skilaboð um að þagga eigi niður í uppljóstrurum sem vilji koma upplýsingum sem eigi erindi til almennings á framfæri.
Kristinn (t.h.) segir dóminn fela í sér skilaboð um að þagga eigi niður í uppljóstrurum sem vilji koma upplýsingum sem eigi erindi til almennings á framfæri. samsett mynd
Kristinn Hrafnsson talsmaður WikiLeaks segir dóminn yfir Bradley Manning vera skelfileg tíðindi. Dómurinn muni hins vegar ekki ná að fæla aðra uppljóstrara frá því að koma upplýsingum sem eigi erindi við almenning á framfæri.

„Þetta er hroðalegur dómur og skelfileg niðurstaða fyrir þennan unga mann sem gerði ekki annað en hlýða sinni samvisku og upplýsa almenning um stríðsglæpi og ill verk sem hann komast að í sínu starfi. Á meðan þeir sem frömdu illvirkin og stríðsglæpina ganga lausir eða hafa fengið léttvæga dóma,“ segir Kristinn.

Hann segir dóminn fela í sér skilaboð um að þagga eigi niður í uppljóstrurum sem vilji koma upplýsingum sem eigi erindi til almennings á framfæri. Hann hafi hins vegar enga trú á að það muni takast.

„Það er fólk sem hefur samvisku til að bera til að ljóstra upp um hluti sem eiga að vera í almanna vitneskju og við eigum eftir að sjá fleiri slíka. Við sjáum að Edward Snowden lét það ekki stöðva sig þótt hann sæi skelfilega meðferð á Bradley Manning í fangelsi á meðan hann beið réttarhalda,“ segir Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×