
Upprætum nauðganir á átakasvæðum
Nýjasta skýrsla Rannsóknarnefndar SÞ er átakanleg. Hún lýsir því meðal annars hvernig móður er nauðgað og hún þvinguð til að elda ofan í og þrífa eftir kvalara sína, undir hótunum um að annars verði börn hennar myrt. Þar segir einnig frá háskólanema sem var nauðgað vegna þess að bróðir hennar var eftirlýstur af stjórnarhernum.
Sögur sem þessar eru aðeins toppurinn á ísjakanum. Ótti, blygðun og helber barátta um að komast lífs af veldur því að margir þolendur þora ekki að stíga fram og segja sögu sína. Kynferðislegu ofbeldi hefur verið beitt sem vopni í nánast öllum stríðsátökum okkar tíma, frá Bosníu til Rúanda. Nauðgunum er vísvitandi beitt sem hernaðartækni, í því skyni að ná fram pólitískum markmiðum: að niðurlægja pólitíska andstæðinga, að flæma á brott eða undiroka fólk af öðrum þjóðflokki eða þjóðerni, eða að hræða heila samfélagshópa til undirgefni. Í sumum tilvikum er nauðgunum jafnvel beitt vísvitandi til þess að smita konur af HIV-vírusnum, eða slasa þær svo illa að þær geti ekki alið börn.
Nauðgunum er beitt vegna þess að það er auðvelt að breiða yfir þær og hitta fyrir viðkvæmasta fólkið. Þegar við heimsóttum Lýðveldið Kongó hittum við móður sem átti fimm ára dóttur sem hafði verið nauðgað. Stúlkan sú er of ung til að geta látið rödd sína heyrast en þjáningar hennar og milljóna annarra fórnarlamba um víða veröld ættu að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að grípa til aðgerða.
Heimsbyggðin hefur gert með sér samninga um allsherjarbann við notkun klasasprengja og jarðsprengja, eða til að hamla gegn alþjóðlegu vopnasmygli. Allir þessir alþjóðasáttmálar voru eitt sinn álitnir vera draumórar einir. Uppspretta þeirra allra var réttlát reiði fólks um allan heim yfir afleiðingunum af notkun þessara vopna sem leiddi til alþjóðlegrar samstöðu. Það er tími til kominn að heimsbyggðin beiti sér með sama hætti gegn nauðgunum og kynferðisofbeldi á átakasvæðum.
Inngróin hefð refsileysis
Kjarni vandans er inngróin hefð refsileysis, þar sem tugþúsundir nauðgana hafa í hverju landi fyrir sig ekki leitt til nema fáeinna ákæra. Mennirnir sem nauðga föngum í fangabúðum í Sýrlandi þykjast vissir um að þeir komist upp með það, enda bendir reynsla sögunnar til þess að svo sé. Annar mikilvægur þáttur er skorturinn á félagslegri umönnun fórnarlambanna, sem í mörgum tilvikum sæta ævilangri útskúfun, heilsuleysi og sálrænu áfalli, í ofanálag við þjáningarnar sem þau urðu fyrir af hendi kvalara sinna.
Við höfum sameinast um að beita okkur í þágu þessa málstaðar vegna þess að við höfum bæði séð með eigin augum hvernig kynferðislegt ofbeldi eyðileggur líf fórnarlambanna og fjölskyldna þeirra. Við viljum vekja athygli á hinni brýnu þörf fyrir aðgerðir. Og við skorum á ríkisstjórnir heims að taka saman höndum um að gera baráttuna fyrir því að uppræta stríðssvæðanauðganir að algjöru forgangsmáli.
Við hófum þessa baráttu í fyrra og erum þakklát fyrir hve mörg lönd hafa brugðist við henni. Á G8-fundinum í London í apríl síðastliðnum skuldbundu ríkisstjórnir átta mestu iðnvelda heims, þar á meðal landa okkar beggja, sig til að gera tímamótaátak í þessum efnum. Í júní samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samhljóða ályktun um að styrkja getu samtakanna til að takast á við vandann. 45 aðildarríki SÞ sýndu stuðning sinn með því að gerast meðflytjendur að tillögunni – sem er metfjöldi.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer fram í New York í næstu viku, en það er stærsti leiðtogafundur heims á ári hverju. Á þessu þingi, nánar tiltekið 24. september næstkomandi, verður lögð fram ný „Yfirlýsing um skuldbindingu til að binda enda á kynferðislegt ofbeldi í stríðsátökum“. Hún hefur verið samin í samstarfi sérstaks fulltrúa framkvæmdastjóra SÞ um kynferðislegt ofbeldi og fulltrúa á annan tug ríkja frá Mið-Austurlöndum, Evrópu, Afríku og Asíu, en leiðtogar þeirra hafa fallist á að taka upp þessa baráttu með okkur. Yfirlýsingin mun gefa hverju einasta ríki heims tækifæri til að sýna afstöðu sína til þessa málstaðar.
Fyrirheit um nýjan alþjóðasáttmála
Ríkin sem samþykkja yfirlýsinguna munu, í fyrsta sinn, lýsa því yfir að alvarleg kynferðisbrot í stríði jafngildi alvarlegu broti á Genfarsáttmálunum og fyrsta viðauka þeirra. Þetta þýðir að handtaka má hvern þann sem grunaður er um slíka háttsemi, hvar sem hann er staddur í heiminum.
Yfirlýsingin felur í sér heit um að heimila ekki að ákvæði um sakaruppgjöf fyrir kynferðisbrot séu sett inn í friðarsamninga, svo að ekki verður unnt að sópa þessum glæpum undir teppið og stríðsherrar læri að þeir verði dregnir til ábyrgðar.
Yfirlýsingin gefur fyrirheit um nýjan alþjóðasáttmála fyrir mitt næsta ár, sem er til þess fallinn að auka líkurnar á því að vitnisburður um slíka glæpi sé viðurkenndur fyrir rétti og að fleiri fórnarlömb sjái réttlætinu fullnægt. Hún gefur enn fremur fyrirheit um að öryggi og mannvirðing fórnarlamba verði í fyrirrúmi við rannsókn slíkra mála á átakasvæðum.
Hún inniheldur einnig ákvæði um þátttöku kvenna, vernd flóttamanna og þjálfun fyrir her- og lögreglusveitir. Þau lönd sem skrifa upp á yfirlýsinguna skuldbinda sig til að setja vernd gegn kynferðisofbeldi á oddann í mannúðar- og hjálparstarfi á átakasvæðum og til að aðstoða við að efla bjargir þeirra ríkja þar sem hættan er mest á að slíkt ofbeldi eigi sér stað.
Við trúum því að þetta séu allt áfangar sem hver einasti meðlimur alþjóðasamfélagsins ætti að geta stutt. Við vonum því að meirihluti ríkisstjórna heims muni skrifa upp á þennan sáttmála og að í sameiningu getum við hrint þessum skuldbindingum í framkvæmd. Takist okkur það gæti það markað þáttaskil í alþjóðlegu viðhorfi til nauðgana og kynferðisofbeldis og síðast en ekki síst markað upphafið að endalokum refsileysis gerendanna.
Það er margs konar annað óréttlæti sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir en nauðgun og misnotkun hundraða þúsunda kvenna, karla og barna er ekki lengur hægt að líða. Við vonum að fólk um heim allan muni leggjast á árarnar með okkur.
William Hague
utanríkisráðherra Bretlands
Angelina Jolie
sérstakur sendiherra UNHCR
Skoðun

Hlustum á okkar landsliðskonur - sýnum Ísrael rauða spjaldið
Hrönn G. Guðmundsdóttir,Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar

Hópnauðganir/svartheimar!
Davíð Bergmann skrifar

Valdið og samvinnuhugsjónin
Kjartan Helgi Ólafsson skrifar

NPA breytti lífinu mínu
Sveinbjörn Eggertsson skrifar

Hefur þú tilkynnt um ofbeldi gegn barni?
Alfa Jóhannsdóttir skrifar

Gildi kærleika og mannúðar
Toshiki Toma skrifar

Hvernig tryggjum við samkeppnishæfni þjóðar?
Jón Skafti Gestsson skrifar

Í minningu Frans páfa - sem tók sér nafn verndardýrlings dýra og náttúru
Árni Stefán Árnason skrifar

Flottu kjötauglýsingarnar í blöðunum...
Ole Anton Bieltvedt skrifar

Grafarvogsgremjan
Þorlákur Axel Jónsson skrifar

Er ég að svindla? – Um sambýli manns og gervigreindar í sköpun og þekkingu
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Fjármögnuðu stríðsvél Rússlands
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Hugleiðingar á páskum
Ámundi Loftsson skrifar

Gremjan í Grafarvogi
Davíð Már Sigurðsson skrifar

Samlokan á borðinu: Hugleiðingar á föstudeginn langaum sjónvarpsþættina Adolescence
Skúli Ólafsson skrifar

Móttaka skemmtiferðaskipa - hlustað á íbúa
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar

Námsfærni nemenda í íslenskum skólum: Eigum við að lækka rána?
Sigríður Ólafsdóttir skrifar

Þegar mannshjörtun mætast
Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson skrifar

Horft til einkunna og annarra þátta við innritun í framhaldsskóla
Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Kristján á Sprengisandi lendir í ágjöf
Björn Ólafsson skrifar

Unglingar eiga skilið heildstætt mat frá framhaldsskólum
Sigurður Kári Harðarson skrifar

Stöðvum glæpagengi á Íslandi
Hjalti Vigfússon skrifar

Jafnlaunavottun - „Hverjir græða á jafnlaunavottun“
Gunnar Ármannsson skrifar

Gervigreind í skólum: Tækifæri sem fáir eru að ræða?
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Hvernig húsnæðismarkað vill Viðskiptaráð?
Finnbjörn A. Hermannsson skrifar

Enginn matur og næring án sérfræðiþekkingar
Ólöf Guðný Geirsdóttir,Ólafur Ögmundarson skrifar

Öll endurhæfing er í eðli sínu starfsendurhæfing
Sveindís Anna Jóhannsdóttir skrifar

„Bíddu, varst þú ekki að biðja um þessa greiðslu?“
Heiðrún Jónsdóttir skrifar

Rétta leiðin til endurreisnar menntakerfisins?
Birgir Finnsson skrifar