Pálmi Rafn Pálmason skoraði eina mark leiksins þegar Lilleström komst áfram í undanúrslit norsku bikarkeppninnar í kvöld. Lilleström vann þá 1-0 sigur á Start í slag tveggja Íslendingaliða.
Sigurmark Pálma kom á 71. mínútu leiksins þegar hann var á réttum stað eftir fyrirgjöf.
Leikurinn var jafn og fengu bæði lið færi til þess að skora. Það var hinsvegar Íslendingurinn sem var hetja sinna manna og kom liðinu í undanúrslitin.
Matthías Vilhjálmsson og Guðmundur Kristjánsson voru báðir í byrjunarliði Start og lék Matthías allan leikinn. Guðmundur var tekinn af velli á 80. mínútu.
Haugesund og Molde eru líka komin áfram í undanúrslit en leikur Rosenborg og Vålerenga í 8 liða úrslitunum fer ekki fram fyrr en í ágúst.
Pálmi Rafn hetja Lilleström í bikarnum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
