Innlent

50 þúsund manns hafa séð Mary Poppins

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Það var góð stemmning meðal þeirra fjölmörgu sem standa á bakvið Mary Poppins sýninguna í Borgarleikhúsinu.
Það var góð stemmning meðal þeirra fjölmörgu sem standa á bakvið Mary Poppins sýninguna í Borgarleikhúsinu. Mynd/Borgarleikhúsið
Borgarleikhúsið fagnaði í gær 100. sýningu Mary Poppins en uppselt hefur verið á allar sýningar frá upphafi. Mary Poppins er þriðja sýning Leikfélags Reykjavíkur sem fer yfir 50.000 gesti í 117 ára sögu Leikfélagsins. Hinar sýningarnar eru Fló á skinni og Sex í sveit.

Þegar er búið að framlengja sýningarleyfinu að utan fyrir Mary Poppins, en það átti að renna út um áramót, og stefnir allt í að sýningin slái nýtt aðsóknarmet áður en yfir lýkur.

Uppfærslan er sú viðamesta og flóknasta sem Borgarleikhúsið hefur nokkru sinni ráðist í – mannmörg og krefjandi dans og söngatriði, hraðar og stórar sviðskiptingar, háskaleg flugatriði og ótal tæknibrellur. Alls eru 50 manns á sviði í Mary Poppins (leikarar, kór, dansarar Íslenska dansflokksins, hljómveit og börn) og mikill fjöldi á bak við tjöldin.

Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson eru í hlutverkum Mary Poppins og sótarans Bert. Mary Poppins hefur hlotið fádæma lof gagnrýnenda sem áhorfenda og var tilnefnd til átta grímuverðlauna í vor, m.a. sem sýning ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×