Innlent

Vita ekki hvar stúlkurnar eru

Þorgils Jónsson skrifar
Konan er talin hafa komið með dætur sínar til landsins fyrr í mánuðinum, en hún átti að skila þeim til föður þeirra 4. ágúst síðastliðinn.
Konan er talin hafa komið með dætur sínar til landsins fyrr í mánuðinum, en hún átti að skila þeim til föður þeirra 4. ágúst síðastliðinn. Fréttablaðið/Anton
Innanríkisráðuneytið hefur ekkert heyrt frá yfirvöldum í Danmörku varðandi kæru dansks manns á hendur íslenskri barnsmóður sinni til lögreglunnar í Danmörku. Þetta staðfesta bæði upplýsingafulltrúi ráðuneytisins og Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, sem fer með mál föðurins.

Lára bætir því við að ekki sé vitað hvar stúlkurnar eru.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í síðustu viku hefur maðurinn grun um að konan hafi numið dætur þeirra þrjár á brott og farið með þær til Íslands í leyfisleysi.

Faðirinn hefur fullt forræði yfir börnunum en móðirin aðeins umgengnisrétt. Það fyrirkomulag er niðurstaða áralangra forræðisdeilna fyrir dómstólum sem hafa verið afar harðvítugar, ekki síst vegna ásakana konunnar um að maðurinn hafi beitt sig og börnin ofbeldi. Maðurinn neitar þeim ásökunum.

Heimildir blaðsins herma að konan hafi haft stúlkurnar hjá sér í sumar en hafi ekki skilað þeim aftur hinn fjórða ágúst eins og til stóð. Jafnframt hafi konan komið til Íslands fyrr í þessum mánuði og að dæturnar þrjár séu með henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×