Handbolti

Stella kvödd með söknuði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Heimasíða Fram
SönderjyskE í Danmörku mun njóta krafta Stellu Sigurðardóttur á næstu leiktíð. Stella hefur verið í viðræðum við danska félagið í töluverðan tíma og í gær var tilkynnt að samningur væri í höfn.

Stella hefur verið burðarás í sigursælu liði Fram undanfarin ár auk þess að vera einn besti leikmaður deildarinnar. Ljóst er að missir Framara verður mikill enda hefur Safamýrarliðið nánast getað stólað á tíu mörk í leik frá stórskyttunni undanfarin ár.

Stella, sem er 23 ára, hittir fyrir landsliðsþjálfarann Ágúst Jóhannsson hjá SönderjyskE. Ágúst tók við liðinu í febrúar.

„Stella hefur allan sinn feril verið til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan og er frábær fulltrúi félagsins.  Hún verður kvödd með söknuðu og stolti þegar þar að kemur, vondandi með gulllitaðan verðlaunapening í farteskinu, enda ber hún uppeldisstefnu FRAM fagurt vitni og á eftir að sóma sér vel í dönsku úrvalsdeildinni," segir í tilkynningu á heimasíðu Fram.


Tengdar fréttir

Stella með tilboð frá SönderjyskE

Landsliðskonan Stella Sigurðardóttir úr Fram er með tilboð frá danska úrvalsdeildarliðinu SönderjyskE undir höndum. Þetta kemur fram á Sport.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×