Innlent

Stefán Logi hefur ekki verið yfirheyrður

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Stefán Logi Sívarsson er í gæsluvarðhaldi en hefur ekki verið yfirheyrður.
Stefán Logi Sívarsson er í gæsluvarðhaldi en hefur ekki verið yfirheyrður.
Stefán Logi Sívarsson, sem grunaður er um um að hafa í félagi við aðra svipt mann frelsi sínu í höfuðborginni fyrir um tveimur vikum og pyntað, hefur ekki verið yfirheyrður af lögreglu.

Lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, segir þau vinnubrögð lögreglu gagnvart skjólstæðingi sínum í málinu ámælisverð.

Stefán hefur setið í gæsluvarðhaldi í rúma viku. Meirihluta varðhaldsins hefur hann dvalið í einangrunarklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu en var fluttur þaðan á Litla-Hraun á föstudaginn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur ekki þótt tilefni til að taka af Stefáni skýrslu enn sem komið er.

„Ég get lítið tjáð mig um málið að svo stöddu, nema að rannsókn er í fullum gangi,“ segir Jón H.B. Snorrason aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Stefán Logi var handtekinn þann 13. júlí síðastliðinn og úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í kjölfarið. Sérsveit lögreglu handtók Stefán í Miðhúsaskógi í Biskupstungum eftir umfangsmikla leit á öllu Suðurlandi.



Stefán Logi Sívarsson og fjórir menn til viðbótar eru grunaðir um aðild að minnst þremur alvarlegum líkamsárásarmálum undanfarnar vikur. Alls hafa fimm menn verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins.



Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Stefáni Loga rennur út næstkomandi föstudag, að öllu óbreyttu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×