Veiði

Veiðin á leið upp úr öldudal

Kristján Hjálmarsson skrifar
Guðni Guðbergsson fiskifræðingur telur að veiðin eigi eftir að rísa upp úr ölduldal.
Guðni Guðbergsson fiskifræðingur telur að veiðin eigi eftir að rísa upp úr ölduldal. Mynd/garðar
"Það kom okkur á óvart hversu lítil veiðin var í fyrra. Yfirleitt hefur það verið þannig í þessum sveiflum fylgjast góðu árin að og slæmu árin fylgjast að. Þó árið í fyrra hafi verið slæmt kæmi það mér á óvart ef árið í ár yrði jafn slæmt," segir Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, sem hefur rýnt í veiðitölur síðustu ára.

Guðni segir að sagan sýni að tíu ára sveiflur séu í laxveiðinni. Frá 2008-2010 hafi veiðin verið mjög góð. Árið 2011 hafi einnig verið gott þótt veiðin hafi verið minni en árin á undan. Svo hafi hrunið komið í fyrra. Um 40% minni veiði hafi til að mynda verið á Vesturlandi sem hafi haft mikil áhrif á heildartölurnar. „Nú erum við í öldudalnum en það fer að styttast í að landið rísi aftur. Það er þó erfitt að segja til um með nákvæmum hætti hvernig veiðin verður þar sem óvissuþættirnir eru margir. Við höfum enga mæla til að segja til um hvernig framtíðin verður."

Guðni segir að þó fiskgengi í ám hafi verið lítil, sem þýðir að hrygningarstofnin sé ekki stór, hafi seiðaþéttleikinn verið í góðu lagi. Minna af laxi hafi skilað sér til baka úr sjó. Frjósemi sjávar liggi þar undir og dýrin sem laxinn lifi á. Guðni segir það í höndum veiðileyfishafa og –sala að passa upp á að seiðaframleiðsla sé nægilega mikil. „Við getum ekki breytt því sem gerist í sjónum en ef búsvæðin eru ekki nýtt að fullu má búast við því að illa fari."

Hann segir veiðileyfissala hafa staðið sig vel og gengið á undan með góðu fordæmi í seiðasleppingum. Þeir hafi tekið frumkvæði sem veiðiréttarhafarnir hefðu sjálfir átt að hafa. „Sem betur fer eru miklir náttúruunnendur meðal veiðimanna og sala en það er fyrst og fremst á ábyrgð veiðileyfishafa að passa upp á sín hlunnindi og sína stofna. Heilt yfir eru menn þó að passa upp á þetta og það eru hagsmunir allra að ástandið sé sem best," segir Guðni. „Ef maður tekur þetta heilt yfir þá eru ekki mikið af skammtímasjónarmiðum, menn eru ekki tilbúnir að veiða mikið eitt árið ef þeir vita að það hefur áhrif til seinni tíma. Menn vilja frekar fara vel með og láta stofninn njóta vafans."

kristjan@frettabladid.is






×