Sport

Ofþjálfun barna í íþróttum áhyggjuefni

Helga Arnardóttir skrifar
Faðir og knattspyrnuþjálfari hefur áhyggjur af því að ungmenni í íþróttum æfi of mikið í viku hverri sem geti valdið ofþreytu, langvarandi meiðslum, og áhugaleysi.

Hann segir lítinn mun vera á vikulegum fjölda æfingatíma íslenskra unglinga, sem stundi tvær íþróttagreinar, og atvinnumanns í handbolta erlendis.

   

Ásgeir Ólafsson starfar sem knattspyrnuþjálfari ungmenna á aldrinum 12-17 ára og er einnig faðir barna í íþróttum.  Hann ritaði grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni eru börnin okkar að æfa of mikið? Ásgeir segir börn og unglinga oft undir of miklu líkamlegu álagi í íþróttum og  fái ekki næga hvíld. Sérstaklega þau ungmenni sem stundi fleiri en eina íþrótt í viku.

„Sem dæmi þá er góður vinur minn atvinnumaður í handknattleik erlendis. Hann æfir allt að sextán til sautján klukkutíma í viku og sonur minn er að æfa tólf klukkutíma í viku þrettán ára gamall."

Þrátt fyrir að rannsóknir sýni að ungmenni hreyfi sig minna nú en áður þá segir Ásgeir ofþjálfun hafa alvarlegar afleiðingar. Íþróttaiðkun sé klárlega af hinu góða en við of mikið álag gætu börn fundið til langvarandi meiðsla, ofþreytu og áhugaleysis. Hann segir að íþróttafélögin megi líta sér nær varðandi tímasetningar æfinga og leikja um helgar. En ábyrgðin sé fyrst og fremst foreldranna.   

 

„Ég beini þessu fyrst og fremst til okkar foreldra. Við þekkjum börnin okkar alltaf best og við eigum auðvitað að leyfa börnunum að taka frí ef þau eru þreytt."

Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgstu með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×