Innlent

Sungu í þágu Kulusuk

Það var nánast setið í hverju sæti í Eldborgarsal Hörpu í dag þegar bæði íslenskir og grænlenskir listamenn stigu þar á svið í þágu íbúa Kulusuk á Grænlandi sem misstu tónlistarhús þorpsins í eldsvoða fyrir hálfum mánuði.

Það geisaði mikið fárviðri þegar eldurinn kviknaði, af því að talið er við að skorsteinninn hafi brotnað, og komst slökkviliðið ekki á staðinn vegna veðursins og brann allt til grunna.

Mynd/Lars-Peter Sterling
KALAK vinafélag Íslands og Grænlands efndi fljótlega eftir brunann í Kulusuk til söfnunar til að gera Grænlendingum kleyft að reisa nýtt tónlistarhús í þorpinu. Í dag var svo blásið til stórtónleika í tónlistarhúsi okkar Íslendinga til að vekja athygli á málstaðinum og var mætingin vægast sagt góð.

„Maður er náttúrulega bara snortinn og þetta sýnir það sem Íslendingar eru hve frægastir fyrir: það er samstaðan og samhugurinn þegar svona harmleik ber að," segir Elmar Johnson markaðsstjóri Guide to Iceland, velunnara Grænlands.

Söngkonan Þórunn Antoníu Magnúsdóttir var ein þeirra sem steig á stokk í dag.

„Mér finnst bara mjög mikilvægt að börn og fullorðnir, sérstaklega börn hafi einhvern stað til að fara á, til að leika sér, skapa og gera músík. Komast frá erfiðum fjölskylduaðstæðum eða hverju sem er í gangi og hafi griðarstað til að gera eitthvað skemmtilegt og tónlistarhús er kárlega sá staður," segir Þórunn Antonía.

Mynd/Lars-Peter Sterling
Um tuttugu íslenskir tónlistarmenn og hljómsveitir stigu á svið í Eldborgarsalnum þennan daginn ásamt þremur heiðursgestum, tónlistarmönnum frá Kulusuk. Frítt var inn á tónleikana en gestir gátu stutt söfnunina með frjálsum framlögum.

„Ég kíkti fram á gang áðan. Þar liggja söfnunarbaukar og posar og mér sýndist bara vera rífandi gangur í söfnuninni. Það hefur verið opnaður söfnunarreikningur og söfnunarnúmer sem verður safnað í gegnum á næstu dögum. Við vonum bara að fólk sjái sér fært að láta, þó að það væri ekki nema nokkrar krónur, af hendi rakna," segir Elmar.

Hægt er að styrkja málstaðinn með því að hringja í eftirfarandi símanúmer:

901-5001 til að gefa 1.000 kr

901-5002 til að gefa 2.000 kr

901-5003 til að gefa 3.000 kr




Fleiri fréttir

Sjá meira


×