Innlent

Formaður Heimdallar tekur harðri gagnrýni með stóískri ró

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var meðal annars uppnefnd snobbtík.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var meðal annars uppnefnd snobbtík.
„Ég tek þessu nú með stóískri ró,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar, en hún var harðlega gagnrýnd víða á samfélagssíðum í gær sem og í ummælakerfum fréttasíðna.

Ástæðan er viðtal við Áslaugu Örnu sem birtist í Fréttatímanum í gær en þar var hún spurð hvað henni þætti um það að áfengisverslun ríkisins væri lokuð á sunnudögum, en ástæðan mun vera sú að það er helgidagur þjóðkirkjunnar. Þar sagði Áslaug meðal annars að fólk ætti að geta fengið sér hvítvín með humrinum eða rauðvín með steikinni. Netverjar gagnrýndu hana harðlega, meðal annars fyrir ranga forgagnsröðun.

Það voru útvarpsmennirnir Kristján og Ósk á FM 957 sem ræddu við Áslaugu í dagskráliðnum „Ofsareiði vikunnar“ í morgun. Þar lýsti Áslaug Arna því að blaðamaður hefði hringt í sig og innt hana eftir afstöðu í málinu varðandi léttvín í verslunum, sem Ungir Sjálfstæðismenn hafa barist lengi fyrir.

„Og ég svaraði bara eins og mér fannst, og fólk hefur eitthvað verið að væla yfir þessu. Meðal annars yfir forgangsröðuninni. Kannski hefði ég bara átt að svara einhverju um skuldamál heimilanna,“ sagði Áslaug Arna.

Hún sagði viðbrögðin hafa komið sér töluvert á óvart, ekki síst vegna þess að hún telur að það sé nokkuð þverpólitísk sátt, allavega á meðal ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna, að selja léttvín í verslunum.

„Ég vildi samt óska þess að pólitísk umræða færi á hærra plan. Ég skrifaði raunar um það um daginn og þá varð fólk líka reitt og sakaði mig meðal annars um að vera ómálefnaleg. Nú er sama fólkið að skrifa ómálefnalega hluti um þetta mál,“ sagði Áslaug Arna.

Og orðalagið var ljótt sem var notað um Áslaugu. Hún segist þó ekki taka það nærri sér. „Ég á nokkur uppáhaldsorð,“ sagði hún og sagði reyndar uppnefnið „hrunfreyja,“ vera í uppáhaldi hjá sér. „Svo var ég kölluð heilalaust sjálfstæðisfóstur, vitskert snobbtík og faggabarn,“ sagði Áslaug og bætti við: „Maður getur allavega hrósað fólki fyrir það sem því dettur í hug.“

Áslaug segir það einsýnt að fólk gagnrýni persónu hennar með þessum hætti því það sé ekki tilbúið til þess að rökræða um málefnið sjálft. „Það er bara óskandi að fólk geti rökrætt hluti á málefnalegum grundvelli,“ sagði hún svo. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×