Gagnrýni

Kaflaskipt Babúsku-frumraun

Kjartan Guðmundsson skrifar
Tónlist. Grúska Babúska. Grúska Babúska. Synthadelia Records.



Grúska Babúska er fyrsta plata samnefndrar sveitar sem skipuð er þeim Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur, Arndísi A. K. Gunnarsdóttur, Guðrúnu Birnu La Sage de Fontenay og Dísu Hreiðars. Umbúðirnar eru að sönnu frumlegar og glæsilegar, usb-lykill í líki babúsku, en innihaldið öllu misjafnara að gæðum.

Á köflum gengur blandan af þjóðlaga- og rafpoppi mjög vel upp hjá Grúsku Babúsku. Þess ber helst merki í fyrstu tveimur lögunum (af sex, því í raun er um stuttskífu að ræða), Slagaranum og Daradada. Bæði eru stórgóð, melódísk og nánast dáleiðandi. Þessar lagasmíðar henta fjölskrúðugum hljóðfæraleiknum og vel útfærðum röddununum vel, en útsetningar þeirra eru líka hráar og skemmtilega á skjön við flestar viðteknar reglur. Þá sigla Burg og Snilldarlag (hið fyrra nokkurs konar skringileg afbökun á Brennið þið vitar og það síðara eftir fiftís-uppskrift) gremjulega lygnan sjó eftir lofandi byrjun.

Meðlimir Grúsku Babúsku skammast sín ekki fyrir að setja krúttheit í öndvegi (einn þeirra lét hafa eftir sér í viðtali að tónlist sveitarinnar mætti kannski helst lýsa sem „krúttlegri og krípí“), en öllu má nú ofgera. Miðaldakirkja og Spiladósarvals eru svo hreinlega svo ofboðslega krúttleg lög, með tilheyrandi barnalegum söng og banal textagerð, að hlustun á þau framkallar pirringsviðbrögð hjá undirrituðum. Á svo stuttri skífu kemur slíkt harkalega niður á heildarupplifuninni.

Að því sögðu er ljóst að Grúsku Babúsku-meðlimir luma á góðum hugmyndum og útfærslum. Vonandi verður næsta (stóra?) plata markvissari.

Niðurstaða: Kaflaskiptur frumburður en nokkur lög lofa virkilega góðu.

Á köflum gengur blandan af þjóðlaga- og rafpoppi mjög vel upp hjá Grúsku Babúsku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.