Lífið

Hjálpar að fá styrk í dýru námi

Freyr Bjarnason skrifar
Hulda, sem stundar nám við Juilliard í New York, hlaut 750 þúsund króna styrk.
Hulda, sem stundar nám við Juilliard í New York, hlaut 750 þúsund króna styrk. fréttablaðið/anton
Fiðluleikarinn Hulda Jónsdóttir, sem stundar nám við Juilliard-háskóla í New York, hlaut 750 þúsund króna styrk úr Minningarsjóði um franska hljómsveitastjórann og Íslandsvininn Jean Pierre Jacquillat.

„Þetta hjálpar mjög mikið þegar maður er í dýru námi að fá svona styrk, auk þess sem það er gott að fá viðurkenningu fyrir það sem maður er að gera,“ segir Hulda, sem er 22 ára. Hver önn við Juilliard kostar tæpar fimm milljónir króna en flestir nemendur fá einhverja styrki frá skólanum.

Hulda byrjar í tveggja ára meistaranámi við Juilliard í haust en hún hefur þegar lokið fjögurra ára námi við þennan þekkta tónlistarskóla. Aðspurð segir hún námið hafa verið krefjandi en tímaskyldan sé minni í meistaranáminu. „Ef þú vilt frekar æfa þig eða skipuleggja eigin verkefni eða tónleika geturðu gert það.“

Hún hefur hingað til haft mjög gaman af náminu. „Það er gaman að vera með mörgum sem eru á sama aldri og að fást við sama viðfangsefni. Þetta hefur hefur verið frábært. Þetta var alltaf draumaskólinn hjá mér og þegar ég komst inn kom ekki annað til greina en að fara þangað.“

Hulda hefur í nógu að snúast þangað til hún fer aftur út til Bandaríkjanna um miðjan ágúst. Stærstu verkefnin eru tónleikar í Sigurjónssafni 30. júlí og í Salnum í Kópavogi 11. ágúst. Það mun því lítill tími gefast fyrir sumarfrí hjá þessum stórefnilega fiðluleikara. „Það þýðir ekkert annað en að æfa sig vel þegar það eru svona verkefni framundan.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.