Um 3.000 unglingar í tveimur hópum fylgdust með æfingunni, sem stóð yfir í um tvær og hálfa klukkustund, og spiluðu tónlistarmennirnir efnisskrá kvöldsins í heild sinni.
„Þetta var bara geðveikt,“ segir Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari Skálmaldar, en opna æfingin var hluti af fræðslustarfi Sinfóníuhljómsveitarinnar. „Þetta er svo ævintýralegur salur. Fólk getur hætt að rífa kjaft um þetta hús. Það er þarna og það er geðveikt. Maður fann það í dag hvað það er brjálað að standa þarna fyrir framan allt þetta fólk.“

Um 300 manns verða á sviði Eldborgar í kvöld, en Skálmöld og Sinfóníuhljómsveitinni til halds og trausts verða Karlakór Reykjavíkur, Kammerkórinn Hymnodia og barnakór úr Kársnesskóla. Snæbjörn segir það hafa tekið nokkur rennsli fyrir tónlistarmennina að stilla sig saman en það hafi þó tekið lygilega stuttan tíma.
„Tónlistarmenn eru bara tónlistarmenn og um leið og það er talið í er svolítið eins og það sé verið að keyra á mann með stóru tæki. Við töluðum um það eftir fyrstu æfingu hvað það væri mikið rokk í Sinfó, bara eins og hún kemur. Ég myndi treysta þeim til að spila á Wacken. Þetta eru alvöru tónlistarmenn að gera alvöru hluti af fullum heilindum. Maður dregur það ekkert út úr rassgatinu á sér.“
Uppselt er á tónleikana í kvöld og annað kvöld en örfáir miðar eru eftir á tónleikana á laugardag. „Ég spurði í afgreiðslunni áðan og þá voru 150 miðar eftir,“ segir Snæbjörn og hvetur þá sem ætla að mæta að hafa hraðar hendur.
„Ég veit þetta hljómar eins og söluræða dauðans en ég er að horfa á þetta núna. Ég giska á að miðarnir séu um hundrað núna sem eru eftir.“
